Tökum dæmi af fólki sem ákvað að ávaxta sparnað sinn á íslenskum hlutabréfamarkaði á undanförnum árum, og þannig tekið þátt í endurreisn hans, eftir ævintýralegt fall samhliða hruni fjármálakerfisins. Fólkið fjárfesti þremur milljónum og ákvað að kaupa bréf í þremur fyrirtækjum.
Ein milljón fór í að kaupa hlutabréf í Icelandair, í nóvember 2009, á genginu 2,85. Önnur milljónin fór í að kaupa hlutabréf í Högum, í janúar 2011, nokkru eftir nýskráningu, á genginu 15,65, og sú þriðja fór í kaup á hlutabréfum í fasteignafélaginu Reginn á genginu 8,2 í júlí 2012.
Ef öll hlutabréfin hefðu verið seld í gær hefðu þessar þrjár milljónir verið búnar að rúmlega fimmfaldast, og orðnar 15,78 milljónir. Icelandair bréfin hafa rúmlega tífaldast í verði, en gengið í gær var ríflega 31. Gengi bréfa Haga stendur nú í rúmlega 42 og gengi Regins er nú 18,45.
Óhætt er að segja að miklar hækkanir hafi einkennt hlutabréfamarkaðinn frá því hann spyrnti sér frá botni, eftir hrun fjármálakerfisins. Það verður svo hver að dæma fyrir sig, hvort þessar hækkanir séu eðlilegar eða ekki...