Fjórtán af þeim tuttugu fyrirtækjum sem tóku þátt í Startup Reykjavík viðskiptahraðlinum á árunum 2012 og 2013 eru enn starfandi í dag.* Fjögur þeirra eru þó með litla starfsemi eða minna en einn starfsmann á launum í fullri vinnu. Sex fyrirtæki af tuttugu hafa hætt starfsemi. Samanlagður starfsmannafjöldi hjá fyrirtækjunum tíu sem starfa á fullum krafti er 30 manns, eða þrír starfsmenn að meðaltali.
Þetta kemur fram í úttekt fréttasíðunnar Norðurskautið.is í dag. Fréttasíðan fór í loftið síðasta vor og fjallar um sprota og nýsköpun á Íslandi. „Norðurskautið tók saman afdrif þeirra fyrirtækja sem fóru í gegnum Startup Reykjavík árin 2012 og 2013. Ákveðið var að skoða ekki árganginn í fyrra (2014) þar sem of stuttur tími er liðinn frá því að þau fyrirtæki fóru í gegnum hraðalinn,“ segir í umfjöllun Norðurskautsins.
Viðskiptahraðalinn Startup Reykjavík er samstarfsverkefni Arion banka og Klak Innovit. Hann er haldinn í fjórða sinn í ár. Tíu fyrirtæki eru valin úr hópi umsækjenda og fjárfestir Arion banki í hverju þeirra fyrir tvær milljónir króna gegn 6 prósent eignarhlut. Auk þess fá fyrirtækin ýmiskonar stuðning á tíu vikna tímabili, eins og skrifstofuhúsnæði, ráðgjöf og leiðsögn.
Taflan sýnir afdrif þeirra fyrirtækja sem tóku þátt í Startup Reykjavík á árunum 2012 og 2013. Taflan er unninn af Nordurskautid.is og er birt með leyfi vefsíðunnar.
Fram kemur í umfjölluninni að helmingur fyrirtækjanna tuttugu hafa fengið styrk frá Tækniþróunarsjóði. Meðaltalsupphæð styrkjanna nemur um 17,3 milljónum króna og hafa ýmist verið frumherja- eða verkefnisstyrkir. Af þessum fyrirtækjum hefur eitt hætt störfum og þrjú eru með litla starfsemi.
„Það er erfitt að fá uppgefið frá félögum hversu mikla fjárfestingu þau hafa fengið og því verður að taka þessum upplýsingum með fyrirvara,“ segir í greininni en það er mat Norðurskautsins að fyrirtækin tuttugu hafi samtals fengið tæplega 2,3 milljónir dollara í fjárfestingu og styrki, um 286 milljónir króna. Um 61 prósent upphæðarinnar hefur komið frá Tækniþróunarsjóði, 21 prósent frá Arion banka og um 17,5 prósent frá örðum fjárfestum.
Svipað hlutfall og erlendis
Heildarárangur fyrirtækjanna er borinn saman við sambærilega viðskiptahraðla erlendis og segir að hlutfall fyrirtækja sem hafa hætt starfsemi sé svipað og hjá Techstars, einum stærsta viðskiptahraðli heims. Árið 2014 höfðu 23 af 70 fyrirtækjum sem tóku þátt í Techstarts á árunum 2007 til 2010 hætt starfsemi, eða 33 prósent fyrirtækja. Tuttugu og sex þeirra voru enn starfandi og 21 hafði verið selt. „Það vekur einnig athygli hve stórt hlutfall þessara fyrirtækja hafa verið seld, ólíkt tölunum fyrir Ísland, og má áætla að fjármagnshöft og smæð íslenska markaðarins hafi einhver áhrif þar,“ segir í greininni.
Umfjöllun Norðurskautsins má lesa í heild sinni hér.
*Athugasemd ritstjórnar: Fréttin hefur verið uppfærð frá upphaflegri útgáfu en þá sagði að þrettán fyrirtæki væru enn starfandi. Rétt er að þau eru fjórtán, eins og fram kemur í athugasemd Norðurskautsins vegna breytinganna:
„Norðurskautið hafði gert ítrekaðar tilraunir til að fá svör frá Designing Reality, tölvupóstur, sms og símtal en ekki fengið svör. Því var tekin ákvörðun um að úrskurða fyrirtækið sem ekki starfandi, samkvæmt upplýsingum frá Startup Reykjavík. Eftir að frétt Norðurskautsins birtist í morgun þá fengust þær upplýsingar frá fyrirtækinu að þar er einn starfsmaður í fullu starfi. Fréttinni hefur verið breytt til að endurspegla það.“