Þrettán íslenskir lífeyrissjóðir ætla að setja 580 milljarða króna í fjárfestingar í hreinni orku og umhverfisvænum lausnum til ársins 2030. Sjóðirnir hafa skrifað undir viljayfirlýsingu þess efnis gagnvart alþjóðlegu samtökunum Climate Investment Coalition (CIC) sem var formlega kynnt í morgun á lofslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP26, sem fram fer í Glasgow í Skotlandi. CIC mun fylgjast með og mæla hvort þátttakendur í verkefninu standi við yfirlýst markmið og birta niðurstöður sínar árlega.
Sjóðirnir sem taka þátt í verkefninu eru Almenni lífeyrissjóðurinn, Birta lífeyrissjóður, Brú lífeyrissjóður, Festa lífeyrissjóður, Frjálsi lífeyrissjóðurinn, Gildi-lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður bankamanna, Lífeyrissjóður verzlunarmanna, Lífsverk, LSR, Lífeyrissjóður starfsmanna Reykjavíkurborgar, SL lífeyrissjóður og Stapi lífeyrissjóður. Um er að ræða þrettán af fjórtán stærstu lífeyrissjóðum landsins sem halda samtals á meginþorra þeirra 6.410 milljarða króna sem íslenska lífeyrissjóðakerfið á í hreinni eign um þessar mundir.
CIC eru alþjóðleg samtök en stofnaðilar eru danska umhverfis-, orku og veituráðuneytið, The Institutional Investors Group on Climate Change, Insurance & Pension Denmark (samtök 92 tryggingafélaga og lífeyrissjóða í Danmörku) og World Climate Foundation (samtök sem vinna að orkuskiptum og framþróun lágkolefnishagkerfisins). Markmið CIC er að stuðla að aukinni fjárfestingu í hreinni orku og öðrum umhverfislausnum, svo sem nýtingu jarðhita, vindorku, sólarorku, bættrar orkunýtingar í byggingum og bættri tækni við flutning raforku. Árið 2019 fengu þau danska lífeyrissjóði til skuldbinda sig til að fjárfesta fyrir um 6.500 milljarða króna í grænum lausnum fram til ársins 2030. Í tilkynningu íslensku lífeyrissjóðanna segir að í október í fyrra hafi hafist vinna CIC við að fá stofnanafjárfesta, yfirvöld og aðra hagaðila annars staðar á Norðurlöndunum til að skuldbinda sig á svipaðan hátt. „Sú vinna fór af stað eftir að norrænir forsætisráðherrar ályktuðu á vettvangi Norræna ráðherraráðsins að þeir myndu hvetja til slíkra fjárfestinga.“