Ný skoðanakönnun sýnir að þrír af hverjum fjórum kjósendum af spænskum eða latneskum uppruna líta Donald Trump, auðkýfinginn sem sækist eftir því að verða forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins, neikvæðum augum. Frá þessu er greint á vef NBC. Trump hefur verið á miklu skriði í skoðanakönnunum að undanförnu og mælst líklegastur allra þeirra sem sækjast eftir útnefningu Repúblikanaflokksins til að hljóta hana. Hann hefur látið fjölmörg umdeild ummæli falla frá því að hann tilkynnti um framboð sitt og sérstaklega beint sjónum sínum að innflytjendum frá Mexíkó. Hann hefur meðal annars ásakað yfirvöld í Mexíkó um að senda glæpamenn og nauðgara til Bandaríkjanna.
Þrátt fyrir þetta hefur Trump haldið því fram að hann njóti mikils stuðnings í samfélagi þeirra sem eru af spænskum eða latneskum uppruna í Bandaríkjunum. Könnunin, sem var gerð fyrir NBC, Wall Street Journal og Telemundo, gefur hins vegar hið þveröfuga til kynna. Þar sögðust 75 prósent þeirra 250 af þeim uppruna sem spurðir voru um álit sitt á Trump hafa neikvætt álit á honum. Þar af sögðust 61 prósent hafa mjög neikvætt álit á honum.
Rúmlega helmingur þeirra sem spurðir voru álits á Trump í könnuninni sögðu að ummæli hans um Mexíkana væru móðgandi kynþáttarníð sem ætti ekki heima í baráttunni fyrir útnefningu á forsetaframbjóðanda flokks. Þá sögðust 69 prósent aðspurðra að Trump væri að skaða ímynd Repúblikanaflokksins með yfirlýsingum sínum og hegðun.