Búið er að skera niður umsækjendahópinn sem sótti um starf fréttastjóra RÚV niður í fjóra. Samkvæmt heimildum Kjarnans eru þeir fjórir umsækjendur sem eftir eru; varafréttastjórarnir Sigríður Hagalín Björnsdóttir og Rakel Þorbergsdóttir, Ingólfur Bjarni Sigfússon, fráfarandi yfirmaður nýmiðladeildar RÚV og Svavar Halldórsson fyrrverandi fréttamaður hjá RÚV.
Alls sóttu tólf um starfið en Óðinn Jónsson, núverandi fréttastjóri, ákvað að gera það ekki eftir að hafa náð samkomulagi við Magnús Geir Þórðarson, nýjan útvarpsstjóra, um áframhaldandi störf fyrir RÚV.
Á meðal þeirra átta sem hafa helst úr lestinni erum nokkrir núverandi starfsmenn fréttastofunnar og Benedikt Sigurðsson, aðstoðarmaður Sigurðar Inga Jóhannssonar ráðherra.
Fréttin var uppfærð klukkan 12:58 eftir að Kjarnanum bárust upplýsingar um að Svavar Halldórsson, fyrrum fréttamaður, hefði einnig verið boðaður í viðtal. Upphaflega stóð til að einungis þrír yrðu boðaðir í lokaviðtöl vegna starfsins.