Friðrik Már Baldursson, Már Guðmundsson og Ragnar Árnason eru hæfastir umsækjenda til að gegna stöðu seðlabankastjóra. Þetta kemur fram í umsögn nefndar sem Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra skipaði í lok júní til að leggja mat á hæfi umsækjenda um stöðuna. Kjarninn hefur umsögn hæfisnefndarinnar undir höndum.
Þar er að finna ítarlegar umsagnir um hvern umsækjanda, þar sem fram koma almennar upplýsingar um þá og hæfni þeirra. Umsækjendurnir hafa frest til miðvikudagsins 23. júlí til að koma á framfæri formlegum athugasemdum er lúta að hæfismati þeirra.
Um embætti seðabankastjóra sóttu auk fyrrgreindra, þau Ásgeir Brynjar Torfason, Haukur Jóhannsson, Íris Arnlaugsdóttir, Lilja Mósesdóttir, Sandra María Sigurðardóttir, Yngvi Örn Kristinsson og Þorsteinn Þorgeirsson. Umsóknarfrestur um stöðuna rann út 27. júní síðastliðinn. Eftir fyrstu yfirferð var það mat hæfisnefndarinnar að þrír umsækjendur, þau Haukur , Íris og Sandra María, uppfylltu ekki hæfiskröfur sem gerðar voru til umsækjenda.
Í hæfisnefndina voru skipuð Guðmundur Magnússon, fyrrverandi rektor Háskóla Íslands, Ólöf Nordal, fyrrverandi varaformaður og þingmaður Sjálfstæðisflokksins og núverandi formaður bankaráðs Seðlabankans, og Stefán Eiríksson lögfræðingur sem jafnframt var skipaður formaður nefndarinnar. Stefán og Guðmundur önnuðust viðtöl við umsækjendur. Ólöf Nordal kom að allri málsmeðferð nefndarinnar fram til 14. júlí, þar á meðal gerð umsagnarinnar og undirbúningi viðtala. Hún kom hins vegar ekki að lokagerð umsagnarinnar vegna forfalla.
Við mat á hæfi umsækjenda var lagt fyrir nefndina að hafa meðal annars til hliðsjónar; menntun, starfsferil, reynslu og þekkingu á fjármálastarfsemi og efnahags- og peningamálum.
Í ályktarorðum umsagnarinnar segir: "...er það niðurstaða nefndar sem fékk það hlutverk að meta hæfi umsækjenda um embætti seðlabankastjóra að Friðrik Már Baldursson, Már Guðmundsson og Ragnar Árnason séu allir mjög vel hæfir til að til að hljóta embætti seðlabankastjóra sem auglýst var laust til umsóknar 2. júní 2014 í Lögbirtingablaði og á vefnum."
Búist er við að Bjarni Benediktsson efnahags- og fjármálaráðherra skipi í stöðu seðlabankastjóra á næstunni.