Ed Miliband, leiðtogi Verkamannaflokksins, og Nick Clegg, leiðtogi Frjálslyndra demókrata, hafa báðir sagt af sér nú í morgun. Búist hafði verið við afsögnum beggja leiðtoga eftir að úrslit kosninganna urðu ljós.
Nigel Farage, leiðtogi Breska sjálfstæðisflokksins UKIP, var fyrstur leiðtoga til að segja af sér eftir kosningarnar. Næstur kom Clegg, sem sagði að óttinn hefði unnið sigur í kosningunum í gær, en frjálslyndið tapað. Frjálslyndi í Evrópu mætti síns lítið gegn óttastjórnmálum, þar sem verið væri að hræða kjósendur.
Næst kom svo Miliband, sem sagðist taka fulla ábyrgð á kosningaósigri Verkamannaflokksins. Hann sagði ræðuna ekki vera þá sem hann hefði viljað halda í dag, vegna þess að hann hefði trú á því að Bretar þyrftu á ríkisstjórn Verkamannaflokksins að halda. „Ég held það ennþá en almenningur kaus á annan veg.“ Hann sagði að flokkurinn þyrfti opnar umræður um hvernig ætti að halda áfram. Það yrði að gerast strax og án hindrana, og því væri best að hann stigi strax til hliðar.