Oddný Mjöll Arnardóttir landsréttardómari er sú eina þeirra þriggja sem sóttu um stöðu embættis íslensks dómara við Mannréttindadómstól Evrópu (MDE) fyrr á þessu ári sem hefur sótt aftur um embættið.
Auk hennar sóttu Dóra Guðmundsdóttir lögfræðingur og Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, um embættið áður en umsóknarfrestur rann út 8. ágúst síðastliðinn.
Þing Evrópuráðsins tekur ákvörðun um það hvert þeirra verður fyrir valinu sem íslenski dómarinn við réttinn, en Evrópuráðið fór þess á leit við íslensk stjórnvöld í fyrra að þau myndu tilnefna þrjú dómaraefni sem myndu keppa um að taka við af Róberti Spanó, sem her var dómari við réttinn frá 2013. Kjörtímabil Róberts rennur út í lok október næstkomandi og hann má ekki sækjast eftir áframhaldandi setu.
Fimm manna nefnd sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra skipaði til að leggja mat á þessa þrjá umsækjendur lauk störfum í byrjun febrúar. Niðurstaða hennar var sú að allir umsækjendurnir þrír sem sóttust eftir tilnefningu teldust hæfir til að vera verða tilnefndir af hálfu Íslands.
Í byrjun júní tók svo nefnd ráðgjafa á vegum Evrópuráðsins umsækjendurna í viðtal. Eftir þau viðtöl drógu Jónas og Stefán Geir hins vegar umsóknir sínar til baka. Viðmælendur Kjarnans segja að nefndin hafi frestað því að skila niðurstöðu sinni eftir viðtölin þar sem umsækjendahópurinn hafi þótt of veikur til að gegna stöðunni. Undantekningin þar hafi verið Oddný. Þar sem reglur um skipun dómara í embætti hjá MDE séu þannig að kjósa þurfi milli þriggja umsækjenda var ekki annað að gera en að auglýsa aftur eftir umsækjendum.
Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassborg fjallar um mál sem til hans er vísað af einstaklingum og samningsaðilum vegna meintra brota á ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu eða samningsviðaukum við hann. Dómstóllinn er skipaður einum dómara frá hverju samningsríkja.