Samkvæmt umsögn nefndar sem fjármála- og efnahagsráðherra skipaði í lok júní, til að leggja mat á hæfi umsækjenda um stöðu seðlabankastjóra, eru Friðrik Már Baldursson, Ragnar Árnason og Már Guðmundsson hæfastir umsækjenda til að gegna stöðunni. Kjarninn hefur umsögn nefndarinnar undir höndum.
Við mat á hæfni umsækjenda var lagt fyrir nefndina að hafa til hliðsjónar; menntun, starfsferil, reynslu og þekkingu á fjármálastarfsemi og efnahags- og peningamálum, stjórnunarhæfileika og loks hæfni í mannlegum samskiptum. Nefndin mat hvern umsækjenda þannig að hann var ýmist mjög vel hæfur, vel hæfur, hæfur eða ekki hæfur í hverjum þætti fyrir sig.
Mjótt á mununum
Samkvæmt lögum skal seðlabankastjóri hafa lokið háskólaprófi í hagfræði eða tengdum greinum. Fjögur umsækjenda höfðu auk þessa lokið doktorsprófi og voru metin mjög vel hæf; þau Ásgeir Brynjar Torfason, Friðrik Már Baldursson, Lilja Mósesdóttir og Ragnar Árnason. Nefndin mat sömuleiðis Má Guðmundsson og Þorstein Þorgeirsson mjög vel hæfa til að gegna stöðu seðlabankastjóra, en þeir hafa lagt stund á doktorsnám.
Með hliðsjón af starfsferli umsækjenda mat nefndin Friðrik Má Baldursson, Lilju Mósesdóttur, Má Guðmundsson, Ragnar Árnason, Yngva Örn Kristinsson og Þorsteinn Þorgeirsson mjög vel hæf, en Ásgeir Brynjar Torfason var metinn vel hæfur.
Í lögum um hæfi seðlabankastjóra er kveðið á um að hann skuli búa yfir víðtækri reynslu og þekkingu á fjármálastarfsemi og efnahags- og peningamálum. Í umsögn nefndarinnar má greina að hún hafi átt í nokkrum vandræðum með að gera upp á milli umsækjenda hvað þetta varðar, þar sem hvorki er að finna í greinargerð með lagafrumvarpinu eða nefndaráliti meirihluta viðskiptanefndar, sem lagði til breytingar á 0rðalagi ákvæðisins í meðförum þingsins, leiðbeiningar um hvernig meta eigi þessa reynslu og þekkingu eða til hvaða atriða eigi sérstaklega að horfa. Nefndin kaus því að líta sérstaklega til reynslu umsækjenda af störfum við stjórn peningamála, og til starfa á fjármagnsmarkaði og rannsóknarstarfa, einkum á sviði peningamála.
Með hliðsjón af ofangreindu mat hæfisnefndin þá Friðrik Má Baldursson, Má Guðmundsson og Ragnar Árnason mjög vel hæfa í stöðu seðlabankastjóra. Lilja Mósesdóttir, Yngvi Örn Kristinsson og Þorsteinn Þorgeirsson voru metin vel hæf, og Ásgeir Brynjar Torfason hæfur.
Hæfisnefndin gerði ekki greinarmun á umsækjendum út frá stjórnunarhæfileikum eða hæfni þeirra í mannlegum samskiptum.
Þrír umsækjendur hnífjafnir
Samkvæmt útreikningi Kjarnans eru þeir Friðrik Már Baldursson, Már Guðmundsson og Ragnar Árnason hnífjafnir í kapphlaupinu um seðlabankastjórastöðuna, ef hæfi þeirra er miðað út frá stigagjöf. Þeir hlutu allir tólf stig, Lilja Mósesdóttir og Þorsteinn Þorgeirsson fengu ellefu stig, Yngvi Örn Kristinsson tíu og Ásgeir Brynjar Torfason rak lestina með níu stig.
Í niðurstöðu hæfisnefndarinnar má greina hvar helst er gert upp á milli þremenninganna: "Friðrik Már og Ragnar hafa báðir lokið gunn og framhaldsnámi við háskóla auk doktorsprófs í greinum sem krafa er gerð um (samkvæmt lögum, innsk. blaðamanns). Már hefur sömuleiðis lokið grunn- og framhaldsnámi við háskóla sem fullnægir kröfum laganna og jafnframt lagt stund á doktorsmán um skeið. Allir búa þeir yfir víðtækri reynslu og þekkingu á fjármálastarfsemi og efnahag- og peningamálum. Már sker sig þar úr hvað reynslu af bankastarfsemi varðar vegna starfa sinna í Seðlabanka Íslands um árabil, síðustu ár sem seðlabankastjóri, auk mikilvægrar reynslu sem hann öðlaðist í starfi sínu hjá Alþjóðagreiðslubankanum í Basel í Sviss. Reynsla Friðriks Más og Ragnars á þessu sviði er einna mest af fræði-, kennslu- og stjórnunarstörfum við háskóla þar sem þeir hafa starfað um árabil. Friðrik Már búi einnig að mikilvægri reynslu af sérfræðings- og stjórnunarstörfum hjá Þjóðhagsstofnun og í stjórnun fyrirtækja. Ragnar þekkir vel til starfa Seðlabanka Íslands eftir setu í bankaráði hans undanfarin fimm ár auk fleiri stjórnunarstarfa."
Allir umsækjendur um stöðu seðlabankastjóra hafa frest til miðvikudagsins 23. júlí til að koma á framfæri formlegum athugasemdum er lúta að hæfismati þeirra.