Orkustofnun hefur dregið til baka þrjá virkjunarkosti af þeim 50 sem búið var að senda til verkefnisstjórnar þriðja áfanga rammaáætlunar. Þetta kemur fram í frétt á vef Orkustofnunar.
Virkjanirnar eru Arnardalsvirkjun, Helmingsvirkjun og Vetrarveita í Hálslóni. Allar þrjár tillögurnar eru inni í Vatnajökulsþjóðgarði. Hjörleifur Finnsson, þjóðgarðsvörður í Vatnajökulsþjóðgarði, benti á þetta í fréttum Rúv í síðustu viku.
Ástæða þess að þessar þrjár virkjanir fóru í hóp þeirra virkjunarkosta sem fóru fyrir verkefnisstjórn rammaáætlunar er sú að Orkustofnun notaði ekki nýjustu kort af Vatnajökulsþjóðgarði við vinnslu á virkjunarkostunum. Kortagrunnurinn sem var notaður kom frá Umhverfisstofnun og innihélt ekki nýjustu upplýsingar um breytingar á mörkum Vatnajökulsþjóðgarðs.
Landvarðafélagið fordæmdi Orkustofnun líka fyrir að leggja til virkjanir innan og í jaðri þjóðgarðs og annarra friðlýstra verndarsvæða og benti á að framkvæmdir af því tagi gengu gegn náttúruverndarlögum og lögum um Vatnajökulsþjóðgarð.