Þrívídd er nýr vefmiðill sem stofnaður var til að gefa ungu fólki vettvang til að koma skoðunum sínum, hugsunum og listgreinum á framfæri. Heimasíða Þrívíddar er í senn einföld og smekkleg, en fólkið á bakvið hana er á aldrinum 16 til 25 ára, að því er fram kemur í ágripi heimasíðunnar. Samkvæmt henni hefur hópur af ólíku fólki unnið hörðum höndum í sjálfboðastarfi að gerð síðunnar undanfarna mánuði.
Ritstjórn Þrívíddar skipa Ása Bríet Brattaberg, Sóley Sigurjónsdóttir, Stefán Ingvar Vigfússon og Þorsteinn Eyfjörð. Ása og Sóley eru átján ára, Stefán Ingvar er 21 árs og Þorsteinn er nítján ára gamall.
Hópur sem vill reyna að bæta samfélagið
"Hugmyndin að Þrívídd kom því okkur fannst vanta vettvang fyrir rödd unga fólksins í fjölmiðlum, hvort sem það væri til að fjalla um málefni sem tengjast ungmennum eða til að koma ungum listamönnum á framfæri. Miðillinn er þess vegna hugsaður sem opinn vettvangur fyrir málefni og menningu ungmenna þar sem allir geta komist að og tekið þátt." Þetta segir Ása Bríet Brattaberg, í samtali við Kjarnann.
"Það er ótrúlega skemmtilegt að sjá hvað það er mikið af ungu hæfileikaríku fólki á Íslandi sem er að gera spennandi hluti."
Ása segir stóran hóp koma til með að skaffa efni fyrir Þrívídd. "Hópurinn samanstendur af mjög ólíkum einstaklingum á mismunandi aldri, sem allir eiga þó sameiginlegt að vilja reyna bæta samfélagið; hvort sem það er með því að koma efnilegum listamönnum á framfæri eða gagnrýna málefni sem eru þeim mikilvæg. Hópurinn er kominn hátt í 50 manns af pennum, ljósmyndurum, matarbloggurum, auk þess sem við tökum alltaf við aðsendum greinum, en við erum alltaf opin fyrir að stækka hópinn."
Hafa fjármagnað verkefnið úr eigin vasa til þessa
Fram til þessa hefur hópurinn sem stendur að Þrívídd fjármagnað verkefnið úr eigin vasa. "Í byrjun lögðum við sjálf út fyrir öllu á bakvið síðuna, en í næsta mánuði ætlum við einmitt að halda okkar fyrsta Þrívíddarviðburð sem verður bæði til fjármögnunar fyrir síðuna og góð afþreying fyrir spræka fólkið. Hann verður nánar auglýstur síðar."
Ása Bríet segir aðstandendur Þrívíddar leita í sífellu að nýjum hugmyndum til að bæta vefsíðuna. Hún segir að Þrívídd ætli sér að vera rödd unga fólksins í fjölmiðlum. "Það er ótrúlega skemmtilegt að sjá hvað það er mikið af ungu hæfileikaríku fólki á Íslandi sem er að gera spennandi hluti. Það virðist oft gleymast að ungmenni hafa líka skoðanir, sérstaklega á málefnum sem koma þeim við, eins og hagmunum stúdenta, styttingu náms til stúdentsprófs og öldungadeild. Allt eru þetta málefni þar sem ungmenni eru í brennidepli."