Þrjár konur hafa leitað til neyðarmóttöku kynferðisbrota á Landspítalanum í Fossvogi eftir verslunarmannahelgina. Brotin voru öll framin á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Fréttastofa RÚV greindi frá í hádegisfréttum í dag. Það var Eyrún Björg Jónsdóttir, verkefnisstjóri neyðarmóttökunnar, sem staðfesti að þrjár konu hafi leitað til mótökunnar. Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, vildi ekki staðfesta hvort tilkynnt hafi verið um kynferðisbrot um eða eftir helgina. Hún sagði við fréttastofu RÚV að upplýsingar um störf lögreglunnar á Þjóðhátíð og tölur um afbrot verði birtar í dag eða á morgun.
Páley sendi fyrir helgina út bréf til allra viðbragðsaðila sem tengdust Þjóðhátíð í Eyjum og brýndi fyrir þeim að upplýsa fjölmiðla ekki um kynferðisbrot á hátíðinni. Ákvörðunin hefur verið harðlega gagnrýnd, meðal annars af félögum blaða- og fréttamanna sem sögðu stefnu lögreglunnar í Vestmannaeyjum vera tilraun til þöggunar. Margir fleiri hafa gagnrýnt stefnu lögregluyfirvalda á samfélagsmiðlum.