Starfskjarastefna bandaríska sendiráðsins hér á landi hefur árum saman ekki verið í fullu samræmi við gildandi kjarasamninga á íslenskum vinnumarkaði. Bæði desember- og júlíuppbót starfsmanna í sendiráðinu hefur staðið í stað allt frá árinu 2009 og þá hefur sendiráðið ekki innleitt breytingar sem lúta að styttingu vinnuvikunnar og fjölda frídaga, þrátt fyrir að eiga að uppfæra starfskjarastefnu sína árlega með tilliti til gildandi samninga á vinnumarkaði.
Þetta er á meðal þess sem hnýtt er í, í nýlegri úttekt innra eftirlits bandaríska utanríkisráðuneytisins á starfsemi sendiráðsins í Reykjavík. Innra eftirlitið bendir í skýrslunni á fjölda annmarka í starfsemi sendiráðsins og varpar ljósi á það að starfsemi sendiráðsins var í hálfgerðu uppnámi á meðan á skipunartíma fyrrverandi sendiherra, Jeffrey Ross Gunter, stóð.
Starfsfólk enn að jafna sig eftir Gunter
mbl.is vakti fyrst íslenskra miðla athygli á skýrslu innra eftirlitsins í gærkvöldi, en hún er birt opinberlega á vef innra eftirlitsins og sögð „viðkvæm“, en þó ekki trúnaðarmál. Í henni segir að við vettvangsrannsókn innra eftirlitsins hér á landi hafi komið í ljós að starfsfólk sendiráðsins væri enn að jafna sig á því sem þau lýstu sem ógnandi starfsumhverfi, sem skapað hefði verið af sendiherranum fyrrverandi.
Því var meðal annars lýst af hálfu starfsmanna að Gunter hefði hótað því að lögsækja starfsfólk sem lýsti sig ósammála honum, efaðist um óskir hans eða sýndi honum ekki nægilega hollustu, að hans mati.
Margir starfsmenn lýstu því sömuleiðis við fulltrúa innra eftirlitsins að starfsmenn sem áttu í samskiptum við ráðuneytið í Washington starfa sinna vegna hefðu mátt búa við hótanir af hálfu sendiherrans fyrrverandi, sem Donald Trump skipaði í embætti sendiherra á Íslandi í maí árið 2019.
Versnandi tengsl við íslensk stjórnvöld
Í vettvangsferð innra eftirlitsins komust starfsmenn þess að því að í sendiráðinu væri um þessar myndir lögð mikil áhersla á að byggja aftur upp samband við íslensku ríkisstjórnina, sem hefði hrakað mjög á skipunartíma Gunters.
Í skýrslunni segir að á einum tímapunkti hafi sambandið við íslensk stjórnvöld orðið svo slæmt, vegna framgöngu sendiherrans fyrrverandi, að embættismaður í ráðuneytinu hafi biðlað til skrifstofu Evrópu- og Evrasíutengsla í bandarísku utanríkisþjónustunni um að vinna beint með íslenska utanríkisráðuneytinu til þess að tryggja betra utanumhald um tvíhliða samskipti Bandaríkjanna og Íslands.
Gunter er sagður hafa farið á svig við diplómatískar venjur og siði í samskiptum sínum við íslensk stjórnvöld, meðal annars með yfirlýsingum um viðkvæm varnarmál. Sendiráðið vísar sérstaklega til færslu sem hann setti inn á Facebook-síðu bandaríska sendiráðsins með yfirlýsingu um að Bandaríkin ætluðu að fjárfesta yfir 170 milljónum dala í ýmis verkefni á Íslandi, til þess að styrkja samband ríkjanna.
„Þetta og fleiri samráðslausar yfirlýsingar fyrrverandi sendiherrans sköpuðu deilur meðal almennings á Íslandi,“ segir í skýrslu innra eftirlitsins.
Þar er einnig tekið fram að starfsálag þeirrar deildar sem hefur umsjón með almannatengslum sendiráðsins hefði stóraukist, vegna þeirrar áherslu sem sendiherrann fyrrverandi setti á að ná til fólks í gegnum samfélagsmiðla. Dæmigert hefði verið að sú deild „verði fjölda klukkustunda í vinnu með sendiherranum fyrrverandi til þess að framleiða eina færslu á samfélagsmiðlum.“
40 prentarar fyrir 43 skrifborð
Það kennir ýmissa grasa í þessari skýrslu innra eftirlitsins og meðal annars segir frá því að mannauðsfulltrúi sendiráðsins hafi verið gjörsamlega á haus í sínu starfi, aðallega vegna þeirrar byrði sem fylgdi því að sýsla með mannauðsmál öryggisvarða sendiráðsins.
Mat sendiráðsins var það að 60 prósent af vinnutíma mannauðsfulltrúans færi í umsýslu vegna starfa þeirra 30 öryggisvarða sem starfa hjá sendiráðinu, en þeir eru ráðnir beint til starfa hjá sendiráðinu hér á landi og hafa verið frá árinu 2004, í stað þess að störfunum þeirra sé útvistað.
Við flutning sendiráðsins í nýja og rammgerða byggingu að Engjateigi á síðasta ári fjölgaði öryggisvörðunum um helming – og með því jókst álagið á mannauðsfulltrúann, sem hafði lítinn tíma til að sinna öðrum starfsskyldum sínum.
Einnig segir frá því í skýrslunni að sendiráðinu hafi láðst að láta gera úttekt á jarðskjálftaþoli 11 af 15 þeirra bygginga þar sem sendiráðið leigir í dag íbúðir undir starfsmenn sína. Samkvæmt ábendingu innra eftirlitsins þarf að kalla burðarþolsverkfræðing til verksins.
Innra eftirlitið hnýtir einnig í það sem kallað er „óhófleg notkun einkaprentara“, en í útttekt þess kom í ljós að sendiráðið væri með 40 prentara í notkun, fyrir einungis 43 skrifborð – nánast prentari á hvert borð. Staðlar bandarísku utanríkisþjónustunnar kveða nefnilega á um að einungis eigi að vera einkaprentarar á borðum þeirra sem hafi knýjandi þörf á slíkum, en að öðru leyti skuli nota sameiginlega prentara.