Eftir að upp komst um að breski HSBC bankinn hefði aðstoðað viðskiptavini sína við skattaundanskot, hefur verið skorað á æðstu stjórnendur bankans að þeir afsali sér bónusgreiðslum fyrir yfirstandandi ár. Viðskiptafréttamiðillinn City A.M. greinir frá málinu.
Í frétt City A.M. er greint frá því að fastlega megi reikna með að hluthafar, stjórnmálamenn og fjölmiðlar fari gaumgæfilega ofan í saumanna á bónusgreiðslum til starfsmanna þegar árseikningur bankans lítur dagsins ljós á mánudaginn.
Samkvæmt umfjöllun The Financial Times hvetja hluthafar HSBC stjórn bankans til að halda aftur af sér, þar sem bankinn hafi verið áberandi í fréttum að undanförnu fyrir vafasama starfshætti.
Samkvæmt ársreikningi HSBC er búst við að laun bankastjórans Stuart Gulliver verði lækkuð á næsta ári um 500 þúsund pund og fari úr átta milljónum punda niður í sjö og hálfa milljón. Á meðan er reiknað með að laun annarra stjórnenda lækki mun meira í kjölfar 618 milljóna dala fjársektarinnar sem eftirlitsstofnanir á Bretlandseyjum og Bandaríkjunum lögðu á bankann eftir að upp komst um skattaskjólshneykslið.
HSBC hneykslið er orðið að miklu pólitísku þrætuepli í breskum stjórnmálum. Breski verkamannaflokkurinn hefur sakað ríkisstjórn breska íhaldsflokksins og frjálslyndra um linkind í garð bankans, og fyrir að hafa ekki látið sverfa til stáls með saksóknum eftir að upp komst um hneykslið.