„Þessi norska kattakona ætlar að vinna 150 milljónir. Aðeins þú getur stöðvað hana,“ segir í auglýsingu frá Víkingalottó þar sem fólk er hvatt til þess að kaupa lottómiða. Auglýsingin, og aðrar svipaðar hafa verið sýnilegar á ýmsum vefmiðlum undanfarnar vikur. Eina vandamálið er að auglýsingarnar eru ekki alveg réttar.
Þú getur ekki stöðvað norsku kattakonuna, né finnsku listakonuna eða aðra þátttakendur, í að vinna fyrsta vinning í Víkingalottó. Þátttaka þín hefur engin áhrif á vinningslíkur annarra. Eina leiðin fyrir þig til þess að „stöðva“ kattakonuna er að fá sömu tölur og hún, að því gefnu að þær tölur gefi vinning, og minnka þannig þá fjárhæð sem rennur til hvers og eins með sömu tölur. Annar þátttakandi gæti aðeins stöðvað eða dregið úr vinningslíkum annarra ef ekki væri hægt að kaupa tölur eða raðir sem þegar eru seldar. Þannig er það ekki í Víkingalottó, og kemur það reglulega fyrir að tveir eða fleiri deili með sér fyrsta vinningi.
Þessi finnska listakona ætlar að vinna Víkingalottó. Þú getur ekki stöðvað hana. Myndin er fengin af Facebook-síðu Lottó.
Dregið er úr Víkingalottó alla miðvikudag. Líkurnar á að fá fyrsta vinning eru einn á móti 12.271.512 en dregnar eru út sex tölur af alls 48. Það þýðir að sá sem kaupir tíu raðir í hverri viku, eða 520 raðir á ári, má eiga von á fyrsta vinningi um það bil einu sinni á 23.500 ára fresti.
Tengt efni:
Það er ekki alltaf tóm vitleysa að taka þátt í lottó.