Nú er komið í ljós að hríðskotarifflinum sem Omar El-Hussein notaði í tilræðinu á Austurbrú í Kaupmannahöfn um síðustu helgi hafði verið stolið á heimili liðsmanns heimavarnarliðsins fyrir nokkru. Félagar í heimavarnarliðinu geyma rifflana á heimilum sínum en þeir eru eign hersins. Seinagangur og klúður í réttarkerfinu varð til þess að Omar El-Hussein var látinn laus úr fangelsi áður en afplánun hans hefði átt að vera lokið.
Eftir ódæðin í Kaupmannahöfn um síðustu helgi spurðu margir hvernig Omar El-Hussein hefði getað orðið sér úti um öflugan hríðskotariffil, sem almenningur á ekki að geta komið höndum yfir. Grunurinn beindist strax að hernum enda hafði 44 slíkum rifflum verið stolið úr geymslum hans fyrir nokkrum árum. Rannsókn á morðvopninu hefur leitt í ljós að því var stolið úr heimahúsi fyrir nokkru. Rifflar þessir (M-95) eru geysiöflugir, um það bil metri á lengd, vega með áföstum kíki rúm þrjú kíló og geta skotið allt að 900 skotum á mínútu.
Geymdir í skápum á ganginum
Í danska heimavarnarliðinu eru samtals um 50 þúsund manns, í flestum tilvikum fólk sem fengið hefur herþjálfun. Heimavarnarliðið var stofnað eftir lok síðari heimsstyrjaldar og hlutverk þess í dag er einkum að annast gæslu og stjórna umferð við ýmsar opinberar athafnir og á hátíðisdögum. Starfið er ólaunað en ýmis kostnaður, vinnutap og fleira er greiddur.
Allir 4328 félagarnir í heimavarnarliðinu hafa yfir að ráða hríðskotarifflum, M-95, sem þeir geyma heima hjá sér. Með rifflinum hefur hver og einn fengið sérstakan læstan skáp sem skal vera festur í gólf eða vegg.
Þessir skápar eru þó ekki rammgerðari en svo að „vanur“ maður opnar hann á örfáum sekúndum. Enda er það svo að fjölmörgum rifflum hefur verið stolið frá heimavarnarfólki og þess eru líka dæmi að ræningjar hafi neytt umráðamann riffilsins til að opna skápinn. Þetta fyrirkomulag hefur iðulega verið gagnrýnt en hefur ekki verið breytt. Meðal þess sem hefur verið rætt um til að tryggja að vopnin lendi ekki í höndum annarra en heimavarnarmanna er að beita sömu aðferðum og grannarnir í Noregi og Svíþjóð.
Danski ódæðismaðurinn Omar Abdel Hamid El-Hussein komst yfir hríðskotariffil í eigu meðlims í heimavarnarliðinu.
Svíar og Norðmenn hafa lása í byssunum
Svíar hafa í um tuttugu ár haft sérstaka lása á sínum herrifflum og Norðmenn settu lása í sín vopn fyrir rúmum áratug. Slíkir lásar eru inni í byssunni og til að hægt sé að nota vopnið þarf að opna lásinn með lykli, sem ætíð er í vörslu einhvers annars, til dæmis flokksforingja í Heimavarnarliðinu. Hér í Danmörku hefur verið um það rætt að setja slíka lása í rifflana en ekki orðið af því. Lásar í alla riffla heimavarnarliðsins kosta um það bil 8.5 milljónir (rúmar 170 milljónir íslenskar) sem eru miklir peningar á sparnaðartímum.
Þingmenn sem danskir fjölmiðlar hafa rætt við eru allir á einu máli um að koma verði í veg fyrir að „Pétur og Páll geti komist yfir og notað þessi hættulegu vopn,“ eins og einn þeirra orðaði það. Hvaða leið verður valin til að tryggja það er ókomið í ljós.
Var Omar El-Hussein látinn laus of snemma?
Þessa fyrirsögn mátti lesa á danskri vefsíðu í vikunni en þar var greint frá því að Omar El-Hussein hefði verið látinn laus í lok janúar eftir að hafa afplánað eitt ár af tveggja ára dómi sem hann hlaut í undirrétti vegna hnífstungumáls í nóvember 2013. Hann var handtekinn í janúar í fyrra og settur í gæsluvarðhald meðan dóms var beðið. Dómurinn féll 19. desember, tveggja ára fangelsi, Omar El-Hussein áfrýjaði strax til Eystri –landsréttar. Rétturinn ætlaði að taka málið fyrir í mars á þessu ári en lögmaður Omars El-Hussein sagðist ekki geta mætt í réttinn á þeim tíma og reyndar ekki fyrr en í ágúst næstkomandi. Þetta samþykkti Eystri-landsréttur. Ef niðurstaðan þar hefði orðið sú sama og í undirrétti yrði komið fram yfir þann tíma sem refsingin næði til vegna þess að að hér er það venja að þeir dæmdu sitji tvo þriðju refsingarinna af sér. Af þessum ástæðum ákvað dómari að Omari El-Hussein skyldi sleppt úr gæsluvarðhaldinu, það var gert 30. janúar sl. (ekki á Þorláksmessu í fyrra, eins og fyrst var greint frá). Ef málið hefði verið sett á dagskrá réttarins í mars (í næsta mánuði) er líklegt að Omari El-Hussein hefði verið gert að sitja inni þangað til dómur félli.
Þingmenn æfir
Þegar þetta spurðist út reiddust margir þingmenn heiftarlega. Talsmaður Venstre, stærsta flokksins á þinginu, sagði að það næði ekki nokkurri átt að einhverjir lögfræðingar úti í bæ segðust ekki geta mætt þegar Eystri-landsréttur ákveður að réttarhöld fari fram. Það gangi ekki að lögfræðingar geti þannig stjórnað dagskrá dómstóla eftir eigin geðþótta. Hann bætti svo við að auðvitað hefði enginn getað séð fyrir að slíkt klúður hefði þessar ömurlegu afleiðingar. Margir þingmenn hafa tekið í sama streng og vilja að það verði tryggt að dómstólarnir ráði dagskránni í sínum húsum, ekki menn úti í bæ.