Á borgarstjórnarfundi, sem fer fram í dag klukkan 14, verður lögð fram tillaga með afbrigðum um viðbrögð Reykjavíkurborgar við þeim flóttamannavanda sem Evrópa stendur frammi fyrir. Samkvæmt tillögunni lýsir Reykjavíkurborg því yfir að hún sé tilbúin að taka á móti fleiri flóttamönnum. Öll framboð sem eiga fulltrúa í borgarstjórn standa á bakvið tillöguna. Þetta staðfestir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, í samtali við Kjarnann.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík.
Dagur segir að með tillögunni sé borgarstjórn að ítreka það sem velferðarráð borgarinnar er þegar búið að samþykkja. „Að borgin sé tilbúin að taka á móti fleiri flóttamönnum og að hún sé tilbúin í viðræður við ríkið um það.“ Dagur segir engar tölur um fjölda flóttamanna sem borgin sé tilbúin að taka á móti liggja fyrir. Sveitafélög landsins, sem mörg hver hafa lýst yfir vilja til að taka við fleiri flóttamönnum, eigi að vinna málið í sameiginlegu átaki og í samvinnu við Rauða kross Íslands.
Velferðarráð Reykjavíkur samþykkti bókun á fundi sínum 27. Ágúst síðastliðinn um mótttöku flóttafólks. Bókunin velferðarráðs var svohljóðandi: „Velferðarráð fagnar því að íslensk stjórnvöld ætli að taka á móti flóttafólki á þessu ári og því næsta og axla þannig ábyrgð til að létta á vanda fólks í brýnni þörf. Reykjavíkurborg hefur tekið á móti flestum hópum flóttamanna á undanförnum árum með samningum við velferðarráðuneytið. Velferðarráð felur velferðarsviði að hefja viðræður við ráðuneytið um móttöku þeirra flóttamanna sem hér vilja dvelja.“
Tillagan sem lögð verður fram í borgarstjórn á eftir er svohljóðandi: "Borgarstjórn samþykkir að óska eftir viðræðum við ríkisvaldið um hlutverk og aðkomu borgarinnar að móttöku flóttafólks og lýsir sig reiðubúna til að leggja sitt af mörkum til að tryggja sem flestum öruggt skjól. Borgarstjóra er falið að hefja viðræðurnar, upplýsa borgarráð um framgang þeirra á meðan á viðræðunum stendur og leggja svo fram útfærða, tímasetta og kostnaðarmetna áætlun þegar niðurstaða liggur fyrir."