Alþingi samþykkti í dag frumvarp Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um stöðugleikaskatt. Þverpólitísk samstaða var um afgreiðslu málsins í þinginu. Alls greiddu 55 þingmenn atkvæði með lögunum, sjö voru fjarstaddir og einn greiddi ekki atkvæði. Sá var Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata.
Í lögunum felst að 39 prósent einskiptis skattur mun leggjast á slitabú föllnu bankanna ef þau hafa ekki mætt ákveðnum stöðugleikaskilyrðum sem stjórnvöld hafa sett fyrir þessu áramót. Sá skattur á að skila ríkissjóði 682 milljörðum króna að teknu tilliti til frádráttarliða.
Stærstu kröfuhafar allra slitabúanna hafa allir lýst því yfir að þeir vilji ganga að stöðugleikaskilyrðunum. Framkvæmdahópur um losun hafta hefur auk þess staðfest að tillögur slitabú Glitnis, Kaupþings og Landsbankans um að mæta stöðugleikaskilyrðum stjórnvalda falli innan þess ramma sem stýrihópur um losun hafta hafði samþykkt. Því er búið að mæla með því að slitabúin fái undanþáguheimild frá höftum til að ljúka nauðasamningum á grundvelli tillagna sinna. Gangi það eftir mun stöðugleikaskatturinn aldrei verða að veruleika. Ekki liggur fyrir hversu miklu samkomulag við kröfuhafa muni skila ríkissjóði. Það fer m.a. eftir því hvaða verð fæst fyrir Arion banka og Íslandsbanka, sem eru í eigu tveggja slitabúa. Bjarni Benediktsson hefur sagt að um geti verið að ræða um 450 milljarða króna. Sérfræðingar sem Kjarninn fékk til að reikna út mögulegan ávinning ríkissjóðs út frá tillögum slitabúanna telja að sá ávinningur verði á bilinu 300 til 400 milljarðar króna. DV hefur haldið því fram að stöðugleikaframlag ætti að skila meira en 500 milljörðum króna.
Frumvarpið var lagt fram 8. júní síðastliðinn. Þann sama dag höfðu Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnt aðgerðaráætlun stjórnvalda til losunar fjármagnshafta á fundi í Hörpu. Frumvarpið var samið í fjármála- og efnahagsráðuneyti, í samvinnu við forsætisráðuneyti, Seðlabanka Íslands og ríkisskattstjóra.