Leiðtogar innan allra stjórnarandstöðuflokka taka vel í hugmyndir um að stofnaður verði sérstakur auðlindasjóður. Þeir segja hugmyndina hins vegar ekki nýja og styðja hana með fyrirvara um að enn eigi eftir að kynna útfærslu á sjóðnum. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsmálaráðherra, sagði á ársfundi Landsvirkjunar í gær að honum hann vilji setja á stofn sérstakan orkuauðlindasjóð hér á landi. Hluti af tekjum af orkuauðlindum þjóðarinnar myndi renna í sjóðinn þegar vel árar en hægt væri að nýta fjármunina í sjóðnum þegar illa áraði. Sjóðurinn yrði þannig nokkurs konar varasjóður.
Bjarni sagði rétta tímann til að stofna slíkan sjóð núna, og ætlar að leita stuðnings hjá þinginu fyrir stofnun sjóðs af þessu tagi. Samstaða væri nauðsynleg.
Öll stjórnarandstaðan til, með fyrirvara um útfærslu
Í Fréttablaðinu í dag er leitað viðbragða leiðtoga innan stjórnarandstöðunnar við þessari hugmynd Bjarna. Helgi Hrafn Gunnarsson, þingflokksformaður Pírata, segir þar að hugmyndin hljómi áhugaverð og að hún virðist byggja á norsku leiðinni, sem sé skynsamlegt. „Forgangsröðun á eyðslu peninga kemur oft of snemma, við þurfum fyrst að pæla í hvernig við öflum teknanna og þetta heyrist mér vera liður í því sem er jákvætt."
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir slíkan sjóð lengi hafa verið á stefnuskrá Samfylkingarinnar. Flokkurinn hafi talað fyrir því að sjóður yrði settur á fót þar sem auðlindaarður væri sérgreindur og gjaldtaka af auðlindum samræmd.“
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, gerir þann fyrirvara við hugmyndina að Bjarni hafi ekki kynnt útfærslu sína á sjóðnum. Hún segist hins vegar tilbúintil samstarfs enda hafi hugmyndin verið rædd í tíð síðustu ríkisstjórnar. Hún myndi vilja horfa á málið þeim augum að allar auðlindir væru hugsaðar sem ein heild.
Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, segir að flokkur hans væri algjörlega tilbúinn til samstarfs. „Þetta hljómar eins og góð tónlist í mínum eyrum og það er ánægjuefni að þróunin sé í þessa átt."
Hugmyndir um auðlindasjóð ekki nýjar
Þetta er þó langt frá því að vera í fyrsta skipti sem hugmyndin um auðlindasjóð kemur fram á Íslandi. Ýmsar hugmyndir þess efnis hafa komið upp undanfarin ár, þótt aldrei hafi þeim verið hrint í framkvæmd.
Kjarninn fór ítarlega yfir fyrri tillögur síðustu ára og áratuga í fréttaskýringu í gær.