Vilborg Halldórsdóttir, leikkona og leiðsögumaður, gagnrýnir harðlega óheft þyrluflug með ferðamenn við helstu ferðamannastaði landsins. Vilborg var stödd ásamt hópi ferðamanna við Gullfoss á dögunum, þegar þyrlu bar að garði, og skrifar um lífsreynsluna á Facebook.
„Í dag var ég uppi á Gullfossi í fegursta vetrarveðri sem hægt er að upplifa, skafheiður himinn og skyggnið algert.... þar mátti ég sætta mig við það, að þyrla sveimaði yfir mér í óratíma með tilheyrandi hávaðamengun. Kannski með 2-3 farþega innanborðs. Ætli þeim 250 manns sem voru að njóta fossa og náttúru hafi verið skemmt!? Ætli þeir séu komnir útí hina íslensku náttúru til að sitja undir slíku!?“
Facebook stöðufærsla Vilborgar.
Vilborg veltir fyrir sér hversu lengi Ísland verði spennandi áfangastaður fyrir áhugasama ferðamenn með þessu framhaldi. „Þessi hávaðamengun er eins og sígarettumengun.... fjöldi líður fyrir fáa. Eiga hundruðir að líða fyrir leti og ríkidæmi fárra og sjálfvaldra? Hvenær ætlum við að fara að setja reglur um t.d. þyrluflug yfir þjóðgörðum?“
Engar flugtakmarkanir í þjóðgörðunum
Flugvélar og þyrlur lúta sömu lögum um loftferðir. Samkvæmt reglugerð um flugreglur er óheimilt að fljúga yfir þéttbýlum hlutum borga, bæja eða þorpa eða yfir útisamkomum í minni hæð en 1.000 fetum, eða 300 metrum. Annars staðar, það er utan þéttbýlis eða mannamóta, er bannað að fljúga loftfari í minni hæð en 500 fetum, eða 150 metra hæð yfir sjávarmáli. Þó er í gildi bann við lágflugi yfir friðlandi Þjórsárvera vegna gæsavarps. Þar er flug undir 3000 feta hæð bannað á tímabilinu 10. maí til 10. ágúst ár hvert.
Engar sérstakar takmarkanir eru hins vegar í gildi er varða flug loftfara í þjóðgörðum á Íslandi, en útsýnisflug með ferðafólk hefur aukist gríðarlega hérlendis samhliða sprengingu í komu erlendra ferðamanna hingað til lands. Þá hefur kvörtunum til Samgöngustofu vegna útsýnisflugs á ferðamannastöðum fjölgað sömuleiðis.
Á síðasta ári lagði bæjarráð Ísafjarðarbæjar fram tillögu um að banna lágflug yfir friðlandinu á Hornströndum, eftir að fram kom hygmyndir um þyrluflug á svæðinu, en tillagan tók mið af áðurnefndu flugbanni yfir Þjórsárverum.
Þingvallanefnd hefur fjallað um þyrluflug, og hefur rætt hvort ástæða sé til að setja skýrari reglur um útsýnisflug í þjóðgarðinum. Ólafur Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, segir í samtali við Kjarnann að færst hafi í vöxt að gestir þjóðgarðsins kvarti undan ónæði vegna þyrlna og flugvéla. Hann segir að víða erlendis séu í gildi takmarkanir um útsýnisflug í þjóðgörðum, á friðlýstum svæðum eða á vinsælum ferðamannastöðum, eða það háð sérstöku leyfi.