Flestir stjórnendur þýskra fyrirtækja vilja að Grikkir yfirgefi evruna. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem þýska viðskiptablaðið Handelsblatt framkvæmdi. Í henni kom í ljos að 44 prósent þeirra 673 stjórnenda þýskra fyrirtækja sem spurðir voru um málið vildu að Grikkir hefðu frumkvæði að því að hætta með evru sem gjaldmiðil. Auk þess töldu þrettán prósent þeirra að reka ætti Grikki úr myntsambandinu. Frá þessu er greint á vef Business Insider.
Átta af hverjum tíu þýskum stjórnendum telja að ef Grikkir myndu yfirgefa evruna þá myndi það ekki hafa neikvæð áhrif á önnur ríki sem eru hluti af myntsamstarfinu og minna en fimmtungur aðspurðra hafði áhyggjur af efnahagslegri keðjuverkun þess.
Yanis Varoufakis fjármálaráðherra Grikklands og Alexis Tsipras forsætisráðherra landsins.
Þetta er töluverður viðsnúningur á viðhorfi gagnvart því að Grikkir yfirgefi evruna. Á meðan að á evrukrísunni stóð, á árunum 2010 til 2012, þá höfðu fyrirtæki og stjórnmálamenn í Evrópu miklar áhyggjur af þeim dóminó-áhrifum sem það gæti valdið ef Grikkir hættu að notast við evru. Áhyggjurnar stöfuðu ekki síst af fordæminu sem því myndi fylgja, að ríki gæti yfirgefið myntsamstarfið. Það myndi skapa mikið óöryggi innan þess að ef harðna færi á dalnum gætu ríki alltaf hótað að hætta. Hægt væri að ráða við brotthvarf Grikklands en brotthvarf til dæmis Portúgal gæti leitt til brotthvarfs Spánar og svo framvegis. Nú virðast þessar áhyggjur að mestu horfnar.
Það eru ekki bara fyrirtækin í Þýskalandi sem hafa þá skoðun að Grikkir ættu að yfirgefa myntsamstarfið. Í könnun sem framkvæmd var í mars kom í ljós að rúmur helmingur almennings er á þeirri skoðun líka.
Í Grikklandi er staðan hins vegar allt önnur. Þar vill meirihluti landsmanna vera áfram hluti af evrusvæðinu.