Þýska þingið samþykkti nú í morgun þriðju neyðarlánaveitinguna til Grikklands með yfirgnæfandi meirihluta. 454 þingmenn greiddu atkvæði með samkomulaginu en 113 gegn því. Átján sátu hjá.
Samþykkt þýska þingsins er stór áfangi fyrir samkomulagið og veitingu neyðarlána til Grikklands. Í gær samþykktu þjóðþing Spánar og Eistlands samkomulagið og búist er við því að hollenska þingið samþykki í dag. Samkomulagið gerir ráð fyrir því að fyrsta greiðslan til Grikkja berist í þessari viku svo þeir geti greitt afborgun af láni til Seðlabanka Evrópu á morgun.
Undanfarna daga hefur mikið verið rætt um að Angela Merkel kanslari hafi óttast uppreisn í stjórnarliðinu vegna málsins og að það myndi reynast henni erfitt að fá meirihlutann til að samþykkja samkomulagið. Í annarri atkvæðagreiðslu tengdri Grikklandi fyrr í sumar greiddu 60 þingmenn meirihlutans atkvæði gegn samkomulagi og því hafði verið velt upp af fjölmiðlum að enn fleiri þingmenn myndu gera það nú. Svo reyndist ekki vera.