Þýska þingið hefur samþykkt samkomulag evruríkjanna við Grikkland, með atkvæðum 439 þingmanna gegn 119. 50 af þeim 119 sem kusu gegn samkomulaginu eru stjórnarþingmenn.
Þegar Angela Merkel kanslari ávarpaði þingið fyrir atkvæðagreiðsluna í morgun lagði hún áherslu á að þrír kostir hafi verið í stöðunni. Sá fyrsti að beygja reglur Evrópu svo mikið að þær hefðu ekki verið neins virði lengur. Annar kosturinn hefði verið að gefast upp og reyna ekki að bjarga Grikklandi. Það hefði þýtt að Evrópa myndi horfa á upp á Grikklandi blæða, og algjör ringulreið hefði fylgt. Hvorugur þessa kosta hefði komið til greina.
Því hafi þurft að reyna í síðasta skipti að sjá hvort það væri mögulegt að ná samkomulagi meðal allra 19 evruríkjanna. Þrátt fyrir öll bakslögin hafi þetta tekist á endanum og samkomulagið hefði byggst á gildunum um evrópska samstöðu og ábyrgð ríkja. Hún sagði einnig að það væri ekki almenningi í Grikklandi að kenna hvernig fyrir þeim er komið. Hún viðurkenndi einnig að tillaga Þjóðverja um tímabundið brotthvarf Grikklands úr evrusamstarfinu hafi ekki hlotið neinn hljómgrunn meðal hinna evruríkjanna.
Stjórnarandstaðan gagnrýndi samkomulagið harðlega. Sahra Wagenknecht í vinstriflokknum Die Linke sagði samkomulagið verulega gallað, vegna þess að það geri ekki ráð fyrir þeirri miklu niðurfellingu skulda sem Grikkir þurfi svo nauðsynlega á að halda. Ekki sé langt að bíða þangað til samkomulagið falli um sjálft sig og það þurfi að byrja aftur. Hún líkti fjármálaráðherranum Wolfgang Shäuble við talibana, og sagði hann niðurskurðartalibana. Samflokksmaður hennar Klaus Ernst sagði stjórnvöld í Þýskalandi hafa tekið þátt í því að kúga Grikkland.
Austurríska þingið samþykkti líka í dag að ganga til viðræðna við Grikkland. Enn eiga bæði Lettland og Eistland eftir að ræða málið í þingum sínum. Franska þingið er þegar búið að samþykkja málið með miklum meirihluta og í Finnlandi var 25 manna þingnefnd látin ákveða niðurstöðuna, og hún gaf samþykki sitt. Spænska þingið þarf ekki að samþykkja samkomulagið en Mariano Rajoy forsætisráðherra ætlar samt sem áður að láta þingið ræða og kjósa um málið. Önnur evruríki munu ekki kjósa um málið.