Wolgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, greindi frá því við upphaf skattaráðstefnu sem fram fer í Berlín í dag að tími bankaleyndar, eins og henni hefur verið framfylgt víða um heiminn til þessa, væri liðinn.
Í samtali við Bild í morgun sagði Schäuble: „Bankaleynd í sínu gamla formi er úr sér gengin.“ Á morgun, miðvikudag, munu þýsk stjórnvöld skrifa undir stóran alþjóðlegan samning um að skiptast á upplýsingum um möguleg skattsvik og fjárfestingar útlendinga árlega í framtíðinni. Á meðal þeirra ríka sem verða aðilar að samningnum eru öll Evrópusambandsríkin og þekkt skattaskjól á borð við Liecthenstein, Bermúda og Cayman-eyjar. Alls munu 50 ríki undirgangast hann. Bandaríkin verða ekki á meðal þeirra ríkja, en þau vinna hins vegar mjög stíft að því á öðrum vettvöngum að uppræta skattsvik og bankaleyndina sem hylur þau.
Schäuble segir að í náinni framtíð verði sá reikningur sem skattsvikarar þurfa að greiða komist upp um þá verði „mjög stór“.
Falið fé í þekktum skattaskjólum verður ekki lengur öruggt fyrir löngum armi skattayfirvalda.
Geisladiskar með nöfnum skattsvikara verða verðlausir
Þýsk stjórnvöld hafa verið mjög dugleg á undanförnum árum við að kaupa upplýsingar um þýska skattsvikara sem geyma háar fjárhæðir í fjarlægum skattaskjóðum. Á árunum 2006 til 2012 hafa þau keypt slíkar upplýsingar fyrir samtals 20 milljónir evra. Talið er að þær upplýsingar hafi skilað um 2.000 milljóna evra hagnaði fyrir þýsk stjórnvöld í formi endurálagninga.
Auk þess hafa fjölmargir þýskir skattsvikarar valið að snúa heim með faldar eignir sínar, greiða af þeim gjöld og sektir fyrir feluleikinn til að forðast mögulega fangelsisdóma. Schäuble segir að þessi leið, að selja geisladiska með upplýsingum um skattsvikara fyrir stórar fjárhæðir, verði fljótlega ekki lengur fær. Gögnin verði einskis virði vegna þess að ríkisstjórnir munu geta nálgast þau sjálfar eftir formlegum leiðum.
Kjarninn greindi frá því í morgun að embætti Skattrannsóknarstjóra hafi fengið nöfn 50 íslenskra aðila sem vísbendingar eru um að hafi stundað skattaundanskot frá manni sem bauð embættinu slík gögn til sölu. Fjármálaráðuneytið er nú með það til ákvörðunar hvort frekari gögn verði keypt af manninum, en sýnishornin sem skattrannsóknarstjóri fékk er um tíu prósent þeirra gagna sem maðurinn, sem er erlendur, er með undir höndum og fjalla um íslenska aðila.