Gísli Freyr Valdórsson, fyrrum aðstoðarmaður innanríkisráðherra, segist ekki lengur hafa getað lifað í lygavef og þess vegna hafi hann ákveðið að viðurkenna að hafa afhent Fréttablaðinu og mbl.is upplýsingar um málefni hælisleitandans Tony Omos í nóvember í fyrra. Hann segir ljóst að hann hafi brugðist trúnaði þeirra einstaklinga sem fjallað var um í minnisblaðinu sem hann breytti og lak síðan til fjölmiðlanna tveggja. Gísli Freyr segist einnig hafa brugðist trausti Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra og samstarfsfólks í innanríkisráðuneytinu. Nú vilji hann horfast í augu við mistök sín. Þetta er meðal þess sem kemur fram í tilkynningu sem Gísli Freyr sendi á fjölmiðla í kvöld.
Tilkynning frá Gísla Frey Valdórssyni
„Ég kýs að stíga fram og viðurkenna að hafa afhent fjölmiðlum upplýsingar um málefni hælisleitenda sem höfðu verið í opinberri umræðu í nóvember 2013. Ég get ekki lengur lifað í lygavef sem ég sjálfur ber ábyrgð á að hafa spunnið í kringum mig. Það er ljóst að ég hef brugðist trúnaði þeirra einstaklinga sem um var fjallað og trausti Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og samstarfsfólks í innanríkisráðuneytinu. Nú er mál að linni og ég verð að horfast í augu við gjörðir mínar. Mér hefur verið vikið úr starfi og nú bíð ég dóms í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Þegar ég afhenti fjölmiðlum upplýsingarnar var það gert í góðri trú. Þá gerði ég mér ekki grein fyrir alvarleika málsins, hvað þá að um lögbrot var að ræða. Það var dómgreindarbrestur af minni hálfu. Fjölmiðlar höfðu þá spurst fyrir um málið sem málsaðilar höfðu sjálfir haft frumkvæði að fjalla um opinberlega. En eðli þessara mála er viðkvæmt og stjórnsýslan getur ekki upplýst um alla anga þeirra. Mistök mín fólust í því að telja eðlilegt að upplýsa almenning á Íslandi betur um efni málsins frá fleiri hliðum en komið höfðu fram.
Daginn eftir gerði ég mér grein fyrir að ég hafði tekið ranga ákvörðun. Í stað þess að vera maður til að viðurkenna mistök mín strax sagði ég ráðherra ósatt þegar hún spurði mig hvort ég hefði sent fjölmiðlum upplýsingarnar. Þar sem ég naut þá og síðar óskoraðs trausts ráðherra hafði hún enga ástæðu til að draga orð mín í efa.
Það má vera að reynsluleysi mitt í stjórnsýslu hafi gert það að verkum að ég gerði mér ekki grein fyrir alvarleika málsins. En tíminn leið og málið vatt uppá sig með afleiðingum sem ég sá ekki fyrir. Það varð því alltaf erfiðara fyrir mig að stíga til baka og viðurkenna að ég hafði ekki sagt satt frá í upphafi.
Það er erfitt að útskýra af hverju ég tók ekki af skarið fyrr og viðurkenndi brot mitt. Mig tekur það mjög sárt gagnvart öllum þeim sem ég hef starfað með og hafa mátt sæta ásökunum í kjölfar þeirrar atburðarrásar sem ég ber ábyrgð á. Mig tekur það sárt gagnvart fólki sem tekur þátt í stjórnmálum með það að leiðarljósi að berjast fyrir hugsjónum sínum af heiðarleika og mig tekur það sárt gagnvart almenningi sem á að geta treyst á fagmennsku í íslenskri stjórnsýslu. Ég brást þessu fólki en vil horfast í augu við mistök mín og biðja það fyrirgefningar."