Tillögur um losun fjármagnshafta verða kynntar fyrir efnahags- og viðskiptanefnd á mánudaginn, 8 . desember. Tillögurnar, sem hafa verið í mótun í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, liggja nú fullmótaðar fyrir. Þetta kemur fram í nýrri frétt Bloomberg –fréttaveitunar.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, vildi ekki tjá sig um málið þegar Bloomberg leitaði eftir viðbrögðum við fréttinni. Kjarninn greindi frá því um miðjan nóvember að til stæði að kynna áætlunina síðla í nóvember eða snemma í desember.
Fyrr í dag var tilkynnt um að Seðlabanki Íslands hefði veitt slitabúi gamla Landsbankans (LBI hf.) undanþágu frá fjármagnshöftum til að greiða forgangskröfum sínum í kjölfar samkomulags sem slitabúið gerði við nýja Landsbankann um breytta skilmála skuldabréfa þeirra á milli. Slitabúið fær því að greiða um 400 milljarða króna af forgangskröfum til kröfuhafa gegn því að lengja í skuldabréfum sem nýi Landsbankinn skuldar því. Umfang þeirra er um 228 milljarðar króna. Lokagreiðsla verður nú árið 2026 í stað ársins 2018.
Mögulegur útgönguskattur
Áætlunin sem Bloomberg segir að verði kynnt á mánudag mun að stóru leyti snúast um hvernig farið verður með slitabú Glitnis og Kaupþings, auk nokkurra smærri fallina fjármálafyrirtækja.
Í fjölmiðlum hefur verið fjallað um að líklega verði um að ræða svokallaðan flatan útgönguskatt á eignir . Ef kröfuhafar vilji út þurfi þeir að greiða flatan skatt af öllu fjármagni sem þeir fái að fara með út úr íslensku efnahagskerfi. Samhliða verði kynntar hugmyndir um hvernig leyst verði úr eignarhaldi Íslandsbanka og Arion banka, sem í dag eru báðir í eigu erlendra kröfuhafa. Morgunblaðið greindi meðal annars frá því að skatturinn gæti verið allt að 35 prósent.
Gangi kröfuhafarnir ekki að þessu muni stjórnvöld vera tilbúin að halda þeim áfram í höftum á meðan að öllum öðrum: t.d. íslenskum lífeyrissjóðum, heimilum, fyrirtækjum, verði hleypt út.
Á mánudag mun koma í ljós hvort þessi leið verði farin.
Hundruð milljarða í ríkissjóð
Ljóst er að eftir miklu er að slægjast. Eignir þrotabús Glitnis eru 944 milljarðar króna. Eignir þrotabús Kaupþings eru 789 milljarðar króna. Þrotabú Landsbankans á um 218 milljarða króna í eignum umfram forgangskröfur. ALMC, áður þrotabú Straums Burðaráss fjárfestingabanka, á eignir upp á 97 milljarða króna. Eignir SPB hf., sem áður hét Sparisjóðabankinn/Icebank, eru 106 milljarðar króna. Svo fátt eitt sé nefnt.
Ef útgönguskatturinn yrði til dæmis tíu prósent er ljóst að mörg hundruð milljarðar króna myndu skila sér í ríkissjóð.
Þá er hin snjóhengjan, skammtímakrónueignir erlendra aðila. Þær eru nú um 307 milljarðar króna. Þessi hópur hefur þegar haft útgönguleið í gegnum gjaldeyrisútboð Seðlabankans og hina svokölluðu fjárfestingaleið hans. Þá selja þeir krónur sínar fyrir gjaldeyri þeirra sem vilja koma inn í íslenskt efnahagslif með afslætti.
Ef útgönguskatturinn yrði til dæmis tíu prósent er ljóst að mörg hundruð milljarðar króna myndu skila sér í ríkissjóð.