Tímaáætlanir framkvæmda vegna Borgarlínu hafa verið endurskoðaðar að undanförnu og nú miða áætlanir við að framkvæmdalok við fyrstu lotu verkefnisins verði tvískipt og ljúki á árunum 2026 og 2027. Þetta kemur fram á vef borgarlínuverkefnisins í dag.
Er skýrsla með frumdrögum fyrstu lotunnar var kynnt í upphafi síðasta árs var reiknað með því að hægt yrði að taka fyrstu borgarlínuleiðirnar í notkun árið 2025, samhliða heildstæðri innleiðingu nýs leiðanets Strætó. Áður hafði verið svo jafnvel verið rætt um að fyrsta lotan gæti verið tekin í notkun árið fyrir árslok 2024. Tímalínunni hefur því seinkað nokkuð frá því sem lagt var upp með.
Fram kemur í tilkynningu á vef Borgarlínu að fyrstu framkvæmdir sem tengjast Borgarlínu hefjist í haust, þegar byrjað verður á landfyllingu við brú yfir Fossvog. Tímaáætlunin gerir ráð fyrir því að brúin verði tilbúin í lok árs 2024 og segir í tilkynningunni að vagnar Borgarlínunnar muni byrja að aka á milli Hamraborg og Háskóla Íslands þegar árið 2025.
Þá verður framkvæmdum á þeim kafla leiðarinnar þó ekki lokið, en uppfærðar áætlanir miða við að framkvæmdum á milli Hamraborgar og miðborgarinnar verði lokið árið 2026 og að framkvæmdum á kaflanum á milli Ártúnshöfða og miðborgarinnar ljúki árið 2027.
Faraldurinn og Úkraínustríðið á meðal áhrifaþátta
Í tilkynningu á vef Borgarlínu segir að „nokkur veigamikil atriði“ hafi haft áhrif á tímaáætlanirnar. Í fyrsta lagi sé verkefnið tæknilega flókið og stilla þurfi ýmsa þætti þess saman með öðrum verkefnum samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins sem fram undan eru eða eru þegar hafin.
Dæmi um slíkt verkefni er til dæmis Sæbrautarstokkur, en eins og Kjarninn sagði frá í síðustu viku gerir tillaga sem Vegagerðin og Reykjavíkurborg hafa lagt fram að framkvæmdaáætlun Sæbrautarstokks ekki ráð fyrir því að því verki verði að fullu lokið fyrr en árið 2027. Borgarlína á samkvæmt áætlunum að aka ofan á stokknum er hann verður tilbúinn og þvera þannig Sæbrautina.
Í öðru lagi segir svo í tilkynningu frá Borgarlínu að COVID-19 faraldurinn og stríðið í Úkraínu hafi haft áhrif á virðiskeðjur.
Fram kemur í tilkynningunni á vef Borgarlínu að undirbúningur við aðrar lotur Borgarlínunnar sé að hefjast og að sú vinna muni standa yfir fram á næsta ár. Fyrsta lota Borgarlínunnar er sú lengsta, eða um 14,5 km. „Aðrar lotur eru styttri og þær munu vinnast samhliða lotu eitt,“ segir í tilkynningu Borgarlínu.