Ísland mun ekki taka á sig neinar skuldbindingar sem fela í sér markaðsaðgengi erlendra aðila í TiSA-viðræðunum svokölluðu. Þetta kom fram í svörum Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra í sérstökum umræðum um viðræðurnar á Alþingi í dag.
Gunnar Bragi sagði að TiSA-samningurinn kalli ekki á lagabreytingar hérlendis og því þurfi Alþingi ekki að veita utanríkisráðherra samþykki sitt áður en hann skrifar undir hann. Hins vegar verði lögð fram þingsályktun um fullgildingu samningsins.
TISA stendur fyrir Trade in Services Agreement. Viðræðurnar hafa staðið yfir frá því á vormánuðum 2013. Alls taka 23 aðilar þátt í þeim (Evrópusambandið, sem kemur fram fyrir sín 28 aðildarlönd, er talið sem einn aðili í viðræðunum), þeirra á meðal er Ísland. Því eru alls 50 lönd þátttakendur í viðræðunum.
Skjöl birt síðasta sumar
Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, var málshefjandi og fór yfir þá leynd sem hann taldi að ríkt hefði yfir samningsgerðinni. Kjarninn og valdir fjölmiðlar víða um heim, í samstarfi við Wikileaks, birtu leyniskjöl úr TiSA-viðræðunum í júní 2014 og síðan þá hefur verið umtalsverð umræða um viðræðurnar.
Í byrjun febrúar birti Kjarninn svo upplýsingar, í samstarfi við Associated Whistleblowing Press (AWP), um tillögu sem Tyrkir lögðu fram um viðauka við TiSA-samninginn sem í felst að auka samkeppni um heilbrigðisþjónustu á milli landa með því að markaðsvæða þjónustuna.
Ögmundur spurði svo Gunnar Braga hvort samningurinn yrði borin undir Alþingi áður en að skrifað verði undir hann og hvort til greina kæmi að markaðsvæða almannaþjónustu með samningsgerðinni.
Afdráttarlaus afstaða ráðherra
Gunnar Bragi var afdráttarlaus í tilsvörum sínum. Hann sagði að upplýsingar um markmið Íslendinga og áherslur í viðræðunum væru án nokkurs leyndar. Nú sé hægt að nálgast allar upplýsingar um framvindu þeirra á heimasíðu ráðuneytisins. Mikið samráð hefði auk þess verið við ýmsa hagsmunaaðila og utanríkismálanefnd verið upplýst reglulega.
Gunnar Bragi sagði síðan að Ísland myndi ekki gangast undir neinar skuldbindingar sem feli í sér að veita erlendum aðilum markaðsaðgang að þjónustu sem nú er í almannaþjónustu. Þar á meðal er heilbrigðisþjónusta.
Hann sjái þó ekki ástæðu til að leggja samninginn fyrir Alþingi fyrr en kemur að fullgildingu hans þar sem að TiSA-samningurinn krefst ekki lagabreytinga á Íslandi. Hins vegar verði lögð fram þingsályktunartillaga um fullgildinguna.