Benedikt Friðbjörnsson, tíu ára gamall snjóbrettakappi frá Akureyri, hefur gert styrktarsamning við bandaríska fyrirtækið DC Shoes. Samningurinn er til tveggja ára og færir honum fé til að standa undir ferðakostnaði og ýmsar vörur frá fyrirtækinu. Benedikt mun auk þess fara í myndatökur á vegum DC Shoes og prófa ný snjóbretti og snjóbrettafatnað sem það framleiðir. Þetta kemur fram í viðtali við hann á síðunni albumm.is sem birt var í dag.
DC Shoes er bandarískt fyrirtæki sem sérhæfir sig í gerð vara sem tengjast hljólabretta- og snjóbrettaiðkun.
Benedikt hefur rennt sér á snjóbretti frá því að hann var fimm ára. MYND:ALBUMM.IS
Stefnir alltaf að því að vera bestur
Í viðtalinu segir að Benedikt hafi, þrátt fyrir ungan aldur, verið að renna sér í um fimm ár. „Ég hef verið duglegur að æfa mig og set markmiðin alltaf hátt, ég stefni alltaf að því að vera bestur.“ Hann segist fara eins oft á snjóbretti og hann geti. Á veturna fari hann fjórum til fimm sinnum í viku. Til að geta stundað íþróttina af því kappi sem hann vill hefur Benedikt þurft að fara töluvert erlendis til að renna sér. Þar sé aðstaðan og veðrið betra. „Það getur verið pínu erfitt að læra allt sem ég á að læra en ég læri til dæmis allt heima áður en ég fer til útlanda. Stundum er ég alveg einn mánuð í einu í útlöndum.“
Samningurinn við DC Shoes er ekki sá fyrsti sem Benedikt gerir. Hann hefur haft styrktaraðila allt frá árinu 2012, þegar hann var sjö ára. Á meðal þeirra þekktu fyrirtækja sem hafa styrkt hann eru Mohawks, Oakley, Gopro og Golce auk DC Shoes.
https://www.youtube.com/watch?v=6HFvIiymvpM