Það er ýmislegt á seyði í heiminum í dag, eins og Business Insider greinir frá í þessum lista yfir tíu mikilvæga hluti sem eru að gerast. Það getur verið ágætt að taka frí frá umræðum um þinglok á Íslandi og renna yfir það sem er að gerast annars staðar.
- Vígamenn sjíta undirbúa nú árás á liðsmenn Íslamska ríkisins í borginni Ramadi í Írak, til þess að reyna að ná borginni til baka. Íslamska ríkið náði völdum á borginni um helgina.
- Minnst fjörutíu manns létust í aurskriðu í Kólumbíu í gær, en aurskriðan féll af völdum mikillar rigningar.
- Grikkir hafa samkvæmt grískum fjölmiðlum fengið tilboð um samkomulag við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, sem myndi leysa út fimm milljarða evra í neyðarlán til Grikklands.
- Fyrrum forsætisráðherra Taílands, Yingluck Shinawatra, kom fyrir rétt í dag vegna ákæru um vanrækslu í starfi.
- Kínverjar hafa gert opinberar stefnubreytingar í efnahagsmálum, sem miða að því að auka einkaneyslu, á kostnað fjárfestinga og útflutnings.
- Um 170 meðlimir bifhjólagengja í Texas voru ákærðir fyrir þátttöku í skipulagðri glæpastarfsemi í gær, eftir skotárás á veitingastað sem varð níu manns að bana.
- Olíuverð hækkar nú vegna átaka í Írak og Jemen, sem gætu stöðvað olíuframleiðslu í ríkjunum.
- Tony Abbott, forsætisráðherra Ástralíu, hefur hafnað því að veita áströlskum vígamönnum sem hafa starfað fyrir erlend hryðjuverkasamtök friðhelgi vilji þeir hætta og snúa aftur heim.
- Bandaríkin hafa lofað því að lána Úkraínu einn milljarð Bandaríkjadala til þess að byggja upp efnahag landsins á ný.
- Franski skopmyndateiknarinn Renald Luzier ætlar að hætta á blaðinu Charlie Hebdo. Luzier teiknaði myndina af Múhameð spámanni sem birtist eftir að ráðist var inn á blaðið í janúar og starfsmenn voru myrtir. Hann segir of erfitt að halda áfram án kollega sinna sem létust.