Business Insider gerir í dag, eins og svo oft áður, lista yfir tíu mikilvægustu hlutina sem eru að gerast í heiminum í dag.
- Matsfyrirtækið S&P lækkaði lánshæfismat Grikklands í gær vegna þess að enn hefur ekki samist um neyðarlán til ríkisins. Samkvæmt mati S&P mun verða algjört greiðslufall hjá ríkinu innan árs ef ekki semst.
- Suður-Kórea hefur lækkað stýrivexti niður í 1,5%, og hafa þeir aldrei verið lægri. Öndunarfærasjúkdómurinn MERS er að breiðast út og faraldur gæti haft skaðleg áhrif á efnahagslífið.
- Enn er leitað að morðingjunum tveimur sem sluppu út úr fangelsi í New York um síðustu helgi. Í gær var leitað í norðurhluta New York ríkis og meðal annars var vegum lokað vegna rannsóknarinnar, en mennirnir hafa enn ekki fundist.
- Alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA hefur ákveðið að fresta samkeppni um hvaða ríki fær að halda heimsmeistaramótið í fótbolta 2026, vegna spillingarmála sem nú eru rannsökuð og varða meðal annars úthlutun á mótunum 2018 og 2022.
- Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur heimilað að hundruð hermanna til viðbótar verði sendir til Írak til að hjálpa íröskum herdeildum að ná aftur landsvæðum sem Íslamska ríkið hefur sölsað undir sig.
- Lögreglumaður í Texas, sem var settur í leyfi eftir að hann beindi byssu að óvopnuðum, þeldökkum unglingum í sundlaugarpartýi á dögunum, hefur tjáð sig um málið. Hann segist hafa verið stressaður eftir að hafa sinnt útkalli vegna sjálfsvígs skömmu áður.
- Þrír ráðherrar í pólsku ríkisstjórninni og forseti þingsins hafa sagt af sér eftir að leynilegar upptökur af þeim voru gerðar opinberar. Á upptökunum heyrast stjórnmálamennirnir ræða ýmislegt, allt frá persónulegum samningum yfir í viðkvæm utanríkismál.
- Kínverskir hakkarar sem komust inn í gagnagrunna bandarískra yfirvalda gætu hafa komist yfir persónuupplýsingar um Kínverja sem hafa tengsl við stjórnvöld í Bandaríkjunum. Talið er að stjórnvöld í Kína gætu notað upplýsingarnar til kúgunar.
- Á tíu daga loftlagsfundi á vegum Sameinuðu þjóðanna í Bonn, er verið að vinna að drögum að áætlun um að takmarka hlýnun jarðar við tvær gráður umfram það sem hitinn var fyrir iðnbyltinguna.
- Frans páfi hefur samþykkt að skipaður verði sérstakur dómstóll í Vatíkaninu til að dæma biskupa sem eru grunaðir um að hafa hylmt yfir með barnaníðingum. Þetta þykir stærsta skrefið hingað til í átt að því að draga menn til ábyrgðar vegna barnaníðsmála í kaþólsku kirkjunni.