Business Insider fylgist vel með og setur reglulega saman lista yfir tíu mikilvægustu hlutina sem eru að gerast í heiminum hverju sinni. Listinn í dag er fjölbreyttur og sem fyrr er ýmislegt merkilegt að gerast annars staðar en á Íslandi.
- Grikkir kynntu umbótatillögur sínar fyrir leiðtogum evruríkjanna í gærkvöldi. Tillögunum hefur verið vel tekið en ekki er búið að ná samkomulagi um framhaldið. Grikkir þurfa áframhaldandi neyðarlán til að greiðslufall verði ekki.
- Allar flugvélar í Nýja Sjálandi voru kyrrsettar í dag eftir bilun í ratsjárkerfum.
- Leit að tveimur morðingjum, sem sluppu úr fangelsi í New York-ríki fyrir rúmum hálfum mánuði síðan, breyttist í gær þegar lífsýni úr þeim fundust í sumarhúsi sem hafði verið brotist inn í rúmum 30 kílómetrum vestur af fangelsinu.
- Hersveitir Kúrda sækja nú hratt inn í Raqqa-hérað í Sýrlandi, en það er eitt sterkasta vígi Íslamska ríkisins.
- Í kjölfar skotárásarinnar á kirkju í Suður-Karólínu í síðustu viku hefur ákall um að fáni Suðurríkjanna verði fjarlægður úr opinberum byggingum í ríkinu. Ríkisstjórinn er meðal þeirra sem styður þetta.
- Starfsmenn flugfélagsins Lufthansa hóta nú að fara í verkfall fram í september ef ekki semst um laun og lífeyrisréttindi þeirra fyrir mánaðarlok.
- Rússar ætla að framlengja bann við innflutningi á vestrænum matvælum fram á næsta ár til að hefna fyrir framlengingu Vesturlanda á efnahagsþvingunum sínum gagnvart Rússlandi.
- Fjöldi dýra- og plöntutegunda sem eru í útrýmingarhættu jókst úr 22.413 tegundum í 22.784 tegundir milli ára.
- Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir að að eitur sem er mjög víða notað til að drepa illgresi, 2,4-dichlorophenoxyacetic-sýra, geti mögulega valdið krabbameini.
- Þrátt fyrir mótmæli dýraverndunarsinna var þúsundum hunda slátrað í Kína um helgina, á árlegum hundahátíðarhöldum í bænum Yulin.