Deilur Íslendinga um staðsetningu innanlandsflugvallar komast ekki á listann yfir tíu mikilvægustu hlutina sem eru að gerast í heiminum í dag að þessu sinni, en þar er ýmislegt annað merkilegt.
- Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerir ráð fyrir því að 1,6 milljarða evra endurgreiðsla á láni berist sjóðnum frá Grikklandi á þriðjudaginn. Nú er fundað bæði í Brussel og Aþenu um áframhald samkomulags um skuldamál Grikkja.
- Francois Hollande Frakklandsforseti segir að leigubílaþjónustan Uber ætti að vera ólögleg eftir að ofbeldisfull mótmæli brutust út í París í gær. Leigubílstjórar voru að mótmæla þjónustunni og þeir stöðvuðu umferð, veltu bílum og brenndu hjólbarða.
- Einn er látinn og tveir alvarlega særðir eftir árás á gasverksmiðju í Lyon í Frakklandi í morgun. Francois Hollande forseti segir að árásin beri öll merki hryðjuverkaárásar.
- Hæstiréttur Bandaríkjanna úrskurðaði í gær að lög um heilbrigðistryggingar skyldu standa, sem er mikill sigur fyrir Barack Obama Bandaríkjaforseta, enda breytinga á heilbrigðistryggingakerfinu meðal hans stærstu mála.
- Evrópusambandið mun flytja 40 þúsund flóttamenn sem koma til Ítalíu og Grikklands til annarra ESB-ríkja á næstu tveimur árum.
- Liðsmenn Íslamska ríkisins réðust gegn sýrlenska stjórnarhernum og liðssveitum Kúrda í Kobani í gærkvöldi.
- 200 stúdentar í Búrúndí leituðu skjóls í bandaríska sendiráðinu þar í gær, vegna vaxandi ólgu í landinu. Einn varaforseta landsins hefur flúið til Belgíu.
- Vladimír Pútín Rússlandsforseti og Barack Obama Bandaríkjaforseti ræddu saman í síma í gær í fyrsta sinn frá því í febrúar. Þeir ræddu um versnandi ástand í Sýrlandi og samkomulag við Íran um kjarnorkumál.
- Mikil flóð eru nú í Sochi, rússnesku borginni sem hýsti Vetrarólympíuleikana í fyrra. Hluti borgarinnar er undir vatni og að minnsta kosti einn hefur látið lífið.
- Fjölmiðlasamsteypan IAC/InterActive sem á og rekur stefnumótasíðuna Match.com og smáforritið Tinder hyggst setja þann hluta samsteypunnar sem rekur stefnumótasíðurnar á markað.