Business Insider tekur reglulega saman lista yfir mikilvægustu hlutina sem eru að gerast í heiminum í dag. Aldrei þessu vant kemur Ísland lítillega við sögu!
- Kínverski hlutabréfamarkaðurinn hélt áfram að falla við opnun markaða í dag.
- Yanis Varoufakis, fyrrverandi fjármálaráðherra Grikklands, segir að hann hafi langað til að „hakka“ skattkerfið í Grikklandi og breyta gjaldmiðlinum aftur í drökmu án þess að segja neinum frá því.
- Lögfræðingur Donald Trump hefur hótað tveimur blaðamönnum málsókn fyrir að skrifa umdeilda grein um Trump og fyrrverandi eiginkonu hans, Ivönu. Blaðamennirnir vinna hjá The Daily Beast og sögðu frá því að í skilnaði hjónanna fyrrverandi greindi Ivana frá því að Donald hefði nauðgað henni, en síðar sagði hún það orðalag ekki nákvæmt en að henni hefði fundist hann misnota hana.
- Atlantshafsbandalagið heldur í dag neyðarfund til að ræða hættuna sem Tyrklandi stafar af Íslamska ríkinu. Tyrkir virkjuðu fjórðu grein stofnsáttmála bandalagsins um helgina, en þetta er aðeins í fimmta skipti í sögunni sem það er gert.
- Lögregla í Peking í Kína hefur lokað stórri verksmiðju þar sem falsaðir iPhone símar voru framleiddir. Miðaldra hjón ráku verksmiðjuna sem sögð er hafa verið 19 milljóna dala virði.
- Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur sagt að Sepp Blatter, fráfarandi framkvæmdastjóri FIFA, eigi skilið að fá Nóbelsverðlaunin.
- David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, lofar því að berjast gegn „óhreinu fjármagni“ á húsnæðismarkaði í Bretlandi. Landið eigi ekki að verða skjól fyrir peningaþvætti.
- Teva Pharmaceutical Industries hefur keypt hluta af Allergan, móðurfélagi Actavis á Íslandi, eins og Kjarninn hefur greint frá. Kaupin eru stærstu einstöku viðskipti í sögu Ísraels.
- Volkswagen hefur tekið framúr Toyota, er orðinn stærsti framleiðandi bíla í heiminum.
- Stripe, greiðslufyrirtæki í Sílíkondalnum, hefur fengið inn fjármagn frá fjárfestingahópi sem greiðslukortarisinn Visa leiðir, og nýsköpunarfyrirtækið er nú metið á fimm milljarða Bandaríkjadala.