Þótt ótrúlegt megi virðast þá er ýmislegt annað að gerast í heiminum í dag en umræða um þöggun í Vestmannaeyjum, vera sela á íslenskum tjaldstæðum og tíðindi af magni umferðar á Suðurlandsvegi. Business Insider tekur reglulega saman lista yfir merkilegustu hlutina sem eru að gerast í heiminum í dag. Að venju kennir ýmissa grasa á listanum.
- Yfirvöld í Malasíu hafa staðfest að brakið sem fannst á eyju í Indlandshafi sé að Boeing 777-þotu, sem er sama tegund og hin týnda vél Malaysian Airlines, MH 370, var. Vélin hvarf snemma á síðasta ári.
- Grikkir gætu beðið um allt að 24 milljarða evra, rúmlega 3.500 milljarða króna, þegar fyrsti áfangi nýs björgunarpakka frá kröfuhöfum landsins verður greiddur út síðar í þessum mánuði. Frá þessu er greint í grískum fjölmiðlum.
- Fjölmargir hafa vottað söngkonunni og sjónvarpsstjörnunni Cillu Black, sem lést á heimili sínu á Spáni í gær, virðingu sína. Banamein hennar Black, sem var 72 ára þegar hún lést, liggur ekki fyrir en krufning fer fram síðar í dag.
- Breski stórbankinn HSBC tilkynnti í dag að tekjur hans hefðu aukist um tíu prósent á fyrri helmingi ársins 2015, miðað við sama tímabil í fyrra. Ástæðan er gríðarleg hagnaðaraukning hjá starfsstöð bankans í Hong Kong, en HSBC hefur verið að íhuga að færa höfuðstöðvar sínar frá London til Hong Kong vegna aukinna umsvifa sinna þar.
- Tujia, kínversk fyrirtæki sem leigir út heimili fólks á svipaðan hátt og Airbnb, tilkynnti um það í morgun að það hefði safnað um 300 milljónum dala, um 40,3 milljörðum króna, frá fjárfestum í nýafstöðnu hlutafjárútboði. Tilgangurinn er að auka rekstur Tujia í öðrum löndum.
- Rapparinn Snoop Dogg, sem nýverið heimsótti Íslands, heldur áfram að rata í vandræði. Hann var stöðvaður af lögreglu á Ítalíu á föstudag þar sem að hann var að fara um borð í einkaþotu á leið til Bretlands með 422 þúsund dali, um 57 milljónir króna, í reiðufé á sér. Reiðuféð var í Lous Vuitton tösku í eigu rapparans.
- Volkswagen hefur tekið fram úr Toyota í framleiðslu á bílum og er nú stærsti bílaframleiðandi í heimi. Takmarkinu var náð þremur árum fyrr en áætlanir þýska bílarisans gerðu ráð fyrir.
- Grikkland mun steig enn eitt skrefið í átt frá efnahagslegum glundroða þegar kauphöllin í Aþenu var opnuð á ný eftir að hafa verið lokuð í fimm vikur. Líkt og við var búist féll verð hlutabréfa skarpt við opnunina.
- Notkun ólöglegra lyfja til þess að bæta árangur er mun útbreiddari í frjálsum íþróttum en áður var talið, en samkvæmt rannsókn sem unnin var á fimm þúsund einstaklingum í frjálsum íþróttum var einn af hverjum sjö með ólögleg lyf í blóðinu. Þetta kemur fram í gögnum sem Alþjóða frjálsíþróttasambandið, IAAF, hefur til skoðunar. Samkvæmt þeim var um þriðjungur verðlauna sem unnið var til á Olympíuleikum eða heimsmeistaramótum á tíu ára tímabili unnin af íþróttamönnum þar sem grunur leikur á lyfjanotkun.
- Barack Obama kynnti í gær til sögunnar nýja orkuáætlun Bandaríkjanna. Samkvæmt henni verða rekstraraðilar bandarískra kolaorkuvera verða skikkaðir til að draga mjög úr losun koltvísýrings af þeirra völdum á næstu 15 árum. Búist er við hatrömmum mótmælum frá hagsmunaaðilum vegna þessa.
Og að lokum....
Fyrsta stiklan úr Zoolander 2 hefur verið gerð opinber á netinu. Og hún er mjög fyndin.
https://youtu.be/09nTwccQTUA
Auglýsing