Business Insider tekur reglulega saman lista yfir tíu mikilvægustu hlutina sem eru að gerast í heiminum hverju sinni. Samkvæmt fjölmiðlinum eru þetta tíu mikilvægustu hlutir dagsins í dag:
- Yanis Varoufakis fjármálaráðherra Grikklands mun óska eftir tímabundnu láni frá evruhópnum svokallaða á fundi ríkjanna í dag. Grikkir eru sagðir vilja lán sem kemur þeim í gegnum næstu mánuði, og svo verði samið varanlega fyrir haustið.
- Meira frá Grikklandi, því Alexis Tsipras forsætisráðherra stóð af sér vantrauststillögu sem lögð var fram á gríska þinginu í gær. Hann hlaut stuðning 162 þingmanna af 300.
- Apple er orðið fyrsta fyrirtæki heimsins sem er yfir 700 milljarða Bandaríkjadala virði.
- Jon Stewart ætlar að hætta í The Daily Show síðar á þessu ári, en hann hefur verið stjórnandi þáttarins í sautján ár.
- NBC hefur vikið fréttaþuli Nightly News, Brian Williams, frá störfum í hálft ár án launa. Williams hefur orðið uppvís að því að segja ekki rétt frá atburðum sem gerðust þegar hann fjallaði um Íraksstríðið.
- Lögregla í Sydney hefur handtekið tvo karlmenn sem eru grunaðir um að hafa ætlað að fremja hryðjuverk með því að afhöfða mann. Í íbúð sem þeir voru handteknir í fannst meðal annars fáni Íslamska ríkisins.
- Bandaríkjastjórn hefur staðfest að Kayla Jean Mueller, 26 ára gömul bandarísk kona sem var gísl Íslamska ríkisins, er látin.
- Halliburton ætlar að segja upp sjö prósentum starfsmanna sinna, eða á milli 5.000 og 6.500 einstaklingum, vegna lækkandi olíuverðs.
- Óttast er um framtíð Jemen eftir að ríkisstjórn landsins hrökklaðist frá völdum fyrir helgina.
- Forseti Kína, Xi Jingping, mun fara í sína fyrstu opinberu heimsókn til Bandaríkjanna í september.