Business Insider tekur saman lista yfir tíu mikilvægustu hlutina sem eru að gerast í heiminum í dag, að mati fjölmiðilsins. Þar kennir ýmissa grasa, nú sem endranær.
- Þjóðverjar munu ræða um áætlanir Evrópusambandsins, um að dreifa 160 þúsund flóttamönnum á milli ríkjanna, við utanríkisráðherra Tékklands, Ungverjalands, Póllands og Slóvakíu í dag.
- Japanir halda áfram að kljást við afleiðingar mikilla flóða vegna fellibylsins Etau.
- Fréttir berast nú af því að Rússar hafi afhent sýrlenskum stjórnvöldum fjölda hergagna, sem sagt er að ætluð séu til að berjast gegn hryðjuverkum.
- Hlutabréf á mörkuðum í Asíu hafa hækkað í kjölfar hækkana á Wall Street.
- Finnar hafa lagt til hækkun á fjármagnstekjuskatti og tekjuskatti eigna- og tekjuhárra einstaklinga og vilja nota peningana í flóttamannakrísuna.
- Leopoldo Lopez, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Venesúela, hefur verið dæmdur í fjórtán ára fangelsi fyrir að hvetja til ofbeldis í mótmælum gegn stjórnvöldum í fyrra.
- Vísindamenn hafa fundið nýjan ættingja homo sapiens, manna, inni í helli í Suður-Afríku.
- Barack Obama Bandaríkjaforseti getur fagnað því að öldungardeildarþingmenn Demókrata komu í veg fyrir tilraunir Repúblikana til þess að stöðva Íranssamkomulagið um kjarnorku í gær.
- Forstjóri MtGox, sem var einu sinni umfangsmesti miðlari með Bitcoin, hefur verið ákærður fyrir fjárdrátt í Japan.
- Fjórtán ár eru í dag liðin frá hryðjuverkaárásunum sem hafa alltaf verið kennd við dagsetninguna, 11. september, þegar Tvíburaturnarnir í New York hrundu og ráðist var á Pentagon.