Business Insider tekur reglulega saman lista yfir tíu mikilvægustu hlutina sem eru að gerast í heiminum hverju sinni. Samkvæmt fjölmiðlinum eru þetta tíu mikilvægustu hlutir dagsins í dag:
- Grikkir vilja framlengja lánasamninga um sex mánuði, eftir að hafa hafnað áframhaldi á heildarsamkomulagi við ESB og AGS um endurgreiðslur lánanna.
- Stjórnvöld í Sýrlandi segjast reiðubúin til tímabundins vopnahlés í Aleppo, með því að hætta loftárásum á borgina í sex vikur.
- Vladimír Pútín Rússlandsforseti segir að úkraínskir hermenn eigi að gefast upp fyrir uppreisnarhernum í landinu. Vopnahléð sem var samið um að tæki gildi á sunnudag hefur verið stanslaust brotið.
- Forseti Egyptalands vill að alþjóðaherlið með stuðningi Sameinuðu þjóðanna verði sett saman til þess að berjast gegn Íslamska ríkinu. Þetta sagði hann eftir að hópur kristinna egypta var afhöfðaður á dögunum.
- Peter Oborne, helsti stjórnmálaspekingur Daily Telegraph, hefur sagt upp störfum vegna þess að hann segir blaðið hafa neitað að fjalla ítarlega um HSBC-gögnin, vegna þess að bankinn sé svo stór auglýsandi.
- Tony Abbot forsætisráðherra Ástralíu hefur beðið stjórnvöld í Indónesíu um að þyrma lífi tveggja ástralskra fanga sem voru dæmdir til dauða fyrir fíkniefnasmygl. Abbot biður stjórnvöld um að endurgjalda Ástralíu stuðninginn eftir flóðbylgjuna árið 2004 með þessum hætti.
- Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur lofað að áfrýja ákvörðun dómara sem hafnaði innflytjendastefnu hans.
- Gary Shilling hagfræðingur telur að olíuverð geti enn lækkað um 10 til 20 dollara á tunnu.
- Eitt stærsta flutningafyrirtæki heimsins gæti orðið til ef fimm milljarða dollara tilboði fyrirtækisins Japan Post í félagið Australia´s Toll verður tekið.
- Snapchat leitar nú fjármögnunar fyrir 500 milljónir dala, verðmatið á fyrirtækinu er 19 milljarðar Bandaríkjadala.