Business Insider tekur saman í dag líkt og flesta aðra daga lista yfir þá tíu hluti sem þykja hvað merkilegastir í dag.
- Syriza bar sigur úr býtum í kosningunum í Grikklandi í gær og Alexis Tsipras og hans fólk mun nú mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðum Grikkjum.
- Allt að 13 þúsund flóttamenn komu til Austurríkis á laugardaginn, en leiðtogar Evrópuríkja hyggjast funda í vikunni um leiðir til að dreifa flóttafólkinu sanngjarnara á milli ríkjanna.
- Bandaríkjamenn ætla að taka á móti 100 þúsund flóttamönnum árið 2017, en búið var að samþykkja að taka á móti 70 þúsund manns.
- Apple hefur staðfest að tölvuhakkarar höfðu komið fyrir skrám sem gerðu þeim kleift að ná í upplýsingar notenda í fjölmörgum smáforritum sem hægt er að sækja fyrir Apple-vörur.
- Bretar ætla að verja tveimur milljörðum punda í byggingu kjarnorkuvers í Englandi.
- Ríkisstjórn nýs forsætisráðherra Ástralíu, Malcoms Turnbull, hóf störf í dag. Meðal ráðherra er Marise Payne, sem verður fyrsta konan í starfi varnarmálaráðherra ríkisins.
- Xi Jinping, forseti Kína, mun á morgun koma í þriggja daga opinbera heimsókn til Bandaríkjanna. Fyrsti viðkomustaður er Seattle í Washington, sem flytur meira út til Kína heldur en nokkurt annað ríki í Bandaríkjunum.
- Frans páfi hitti Fidel Castro, fyrrverandi forseta Kúbu, um helgina. Frans var í heimsókn í Havana og hélt meðal annars útimessu sem þúsundir sóttu.
- Japanir hafa samþykkt heimildir til að herlið geti farið út fyrir Japan í fyrsta sinn frá því í seinni heimstyrjöldinni. Heimildin er til staðar til að koma í veg fyrir stríð, segir forsætisráðherrann Shinzo Abe. Friðarsinnar segja hins vegar að breytingarnar gangi gegn stjórnarskrá landsins.
- Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, heimsækir í dag Úkraínu í fyrsta sinn. Hann mun verða viðstaddur undirritun nýrrar hernaðartilskipunar sem skilgreinir Rússa sem hernaðarlegan andstæðing Úkraínu.