Business Insider tekur reglulega saman lista yfir mikilvægustu hlutina sem eru að gerast í heiminum í dag, að mati fjölmiðilsins. Svona lítur listinn út fyrir daginn í dag.
- Seðlabanki Evrópu hóf stórtæk kaup sín á ríkisskuldabréfum í dag. Bankinn ætlar að kaupa bréf fyrir 1,1 trilljón evra út september á næsta ári til þess að örva hagkerfi Evrópu.
- Apple kynnir snjallúrið Apple Watch á kynningarfundi.
- Þýski herinn hefur ákveðið að setja eina herdeild undir stjórn pólska hersins og öfugt, sem á að styrkja tengslin milli þessara tveggja ríkja.
- Barack Obama hélt tilfinningaþrungna ræðu í Selma í Alabama um helgina í tilefni af því að fimmtíu ár eru síðan lögreglan þar réðst gegn fólki sem tók þátt í kröfugöngu fyrir kosningarétti blökkumanna.
- Hagvöxtur í Japan var minni en spár höfðu gert ráð fyrir á síðasta ársfjórðungi síðasta árs, eða 0,4 prósent.
- Leiðtogi Podemos-flokksins á Spáni varaði við því í viðtali að áframhald á niðurskurði og aðhaldsaðgerðum muni leiða til vaxandi stuðnings við hægriflokka sem eru mótfallnir innflytjendum.
- Flugvél sem er knúin sólarorku tók á loft frá Abu Dhabi í morgun, og ætlunin er að fljúga henni hringinn kringum heiminn á næstu fimm mánuðum.
- 20 þúsund fingrafaraskannar verða settir upp í verslunum í Venesúela til að koma í veg fyrir að fólk hamstri mat.
- Bílaframleiðandinn Tesla dregur saman seglin í Kína vegna dræmari sölu en áætluð var.
- Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefur kallað eftir því að eyðilegging Íslamska ríkisins á menningarminjum í Írak verði stöðvuð.