Þorbjörg Marinósdóttir, einnig þekkt sem Tobba Marinós, hefur sagt starfi sínu sem ritstjóri DV lausu. Frá þessu er greint á vef Fréttablaðsins. Að því er fram kemur í frétt Fréttablaðsins ætlar Tobba að einbeita sér að fjölskyldufyrirtækinu Náttúrulega gott sem hún á ásamt móður sinni.
Tobba hefur starfað sem ritstjóri DV í næstum ár en hún tók við stöðunni í lok mars í fyrra, þá skömmu eftir að Frjáls fjölmiðlun ehf., sem þá var útgáfufélag DV, var sameinað Torgi, eiganda Fréttablaðsins og Hringbrautar. Líkt og segir í frétt DV sem var birt þegar Tobba tók við starfi ritstjóra þá er hún fjölmiðlafræðingur að mennt og með mastersgráðu í verkefnastjórnun. Þá hefur hún einnig skrifað fjölda bóka, stýrt sjónvarpsþáttum, starfað í útvarpi og á fjölmiðlum svo sem Séð og Heyrt, á Skjáeinum og á Morgunblaðinu.
DV kemur út einu sinni í viku. Samkvæmt könnun Gallup mælist heildarlestur DV hjá öllum aldurshópum nún um 2,9 prósent. Hjá landsmönnum á aldrinum 18-49 ára mælist lestur blaðsins 2,0 prósent en lestur þess hjá þeim aldurshópi hefur dregist saman um rúmlega 70 prósent á tveimur árum.
Vefur DV, dv.is, er hins vegar á meðal þeirra mest lesnu á Íslandi. Hann er sem stendur í þriðja sæti yfir þá vefi sem fá flestar vikulegar heimsóknir hérlendis, á eftir visir.is og mbl.is. Notendur DV í tíundu viku ársins voru alls 394.404 talsins.