Bogi Ágústsson fréttamaður á RÚV var tekjuhæsti fjölmiðlamaðurinn á RÚV á síðasta ári með rúmar 1.9 milljónir króna að meðaltali á mánuði, að því er fram kemur í Tekjublaði Frjálsrar verslunar. Þar á eftir kemur Broddi Broddason varafréttastjóri RÚV með rúmar 1,4 milljónir króna á mánuði í tekjur.
Tekjublaðið, þar sem tekjur 4.000 Íslendinga eru opinberaðar á grundvelli upplýsinga á greiddu útsvari samkvæmt álagningarskrám Ríkisskattstjóra (RSK), kom út í dag. Í blaðinu er settur sá fyrirvari að um sé að ræða útsvarsskyldar tekjur á árinu 2020 og þurfi þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi.
„Í launum sumra kann að vera falinn bónus vegna ársins 2019, sem greiddur var árið 2020. Miðað er við útsvarsstofn samkvæmt álagningarskrá. Í tölunum eru ekki fjármagnstekjur, t.d. af vöxtum, arði eða sölu hlutabréfa. Sleppt er skattfrjálsum dagpeningum, bílastyrkjum og greiðslum úr lífeyrissjóði. Hafa verður í huga að inni í tekjunum getur líka verið einskiptisgreiðsla vegna úttektar á séreignarsparnaði hjá lífeyrissjóði,“ segir í blaðinu.
Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrverandi forsætisráðherra, var með tæpar 5,5 milljónir króna á mánuði í laun árið 2020 og eru tekjur hans þær langhæstu á árinu meðal fjölmiðlafólks á Íslandi, eins og undanfarin ár. Þess má geta að hluti launa Davíðs eru eftirlaun frá því hann var ráðherra og þingmaður. Eftirlaun Davíðs eru 80 prósent af launum forsætisráðherra en hann fær einnig eftirlaun vegna starfa sinna sem seðlabankastjóri eftir að hann hætti á þingi.
Á eftir Davíð kemur Björn Ingi Hrafnsson á Viljanum með tæpar 3,9 milljónir í tekjur á mánuði. Haraldur Johannesen, hinn ritstjóri Morgunblaðsins og framkvæmdastjóri Árvakurs, er í þriðja sæti yfir tekjuhæstu fjölmiðlamennina með rúmar 3,2 milljónir á mánuði.
Alls eru tuttugu og fjórir starfsmenn RÚV á lista yfir fjölmiðlamenn í Tekjublaðinu í ár. Rakel Þorbergsdóttir fréttastjóri RÚV var með 1.392 þúsund krónur á mánuði í tekjur í fyrra og Egill Helgason dagskrárgerðarmaður með 1.263 þúsund krónur. Sigmar Guðmundsson, fyrrverandi dagskrárgerðarmaður, var með 1.248 þúsund krónur, Baldvin Bergsson dagskrárstjóri Rásar 2 með 1.143 þúsund krónur í tekjur á mánuði, Gísli Marteinn Baldursson, dagskrárgerðarmaður með 1.142 þúsund krónur, Þröstur Helgason með 1.139 þúsund krónur og Sigríður Dögg Auðunsdóttir, fréttamaður og formaður Blaðamannafélags Íslands, með rúma milljón á mánuði í tekjur á síðasta ári.