Tollar og gjöld námu tæplega 50 prósent af verði alifuglakjöts, um 40 prósent af unnum kjötvörum, 32 prósent af verði svínakjöts og 26 prósent af verði nautakjöts árið 2013. Í öllum tilvikum hækkaði tollverndin milli ára. Sömu sögu má segja af ostum, en tollvernd og útboðskostnaður af þeim var 24,1 prósent árið 2013.
Þetta kemur fram í samanburði í skýrslu starfshóps um tollamál á sviði landbúnaðar, sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði 3. mars í fyrra. Hópurinn skilaði skýrslunni til ráðuneytisins í desember, þann 15. desember ef marka má merkingu skýrslunnar á vef ráðuneytisins. Hún var hins vegar hvorki birt á vef ráðuneytisins né rædd á fundi ríkisstjórnar fyrr en í dag.
Í skýrslunni kemur fram að ætla megi að íslenskir bændur fái greitt að meðaltali 35 prósenta hærra afurðaverð frá neytendum en þeir fengju ef engar hindranir væru á innflutningi til Íslands.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Mest er tollvernd í alifuglakjöti, unnum kjötvörum og svínakjöti, en minni á nautakjöti, ostum, reyktu og söltuðu kjöti. Heildarinnflutningur á landbúnaðarvörum árið 2013 var rúmlega 225 þúsund tonn, að verðmæti 51,7 milljörðum króna. Mest er flutt inn af ávöxtum og ýmsum unnum matvörum. 71% af öllu sem er flutt inn kemur frá ESB-ríkjum. Útflutningur landbúnðarvara var tæp 33 þúsund tonn, að verðmæti 7,8 milljörðum króna. Mest var flutt út af hrossum, kindakjöti og drykkjarvörum. 38,3% af heildarverðmætum útflutnings fer til ESB.
Jafnframt kemur fram að Ísland verður að lækka tolla og/eða veita betri markaðsaðgang fyrir landbúnaðarvöru, einkum frá Evrópu, til þess að auka gagnkvæman markaðsaðgang. Bæta þurfi markaðsaðgang útflytjenda fyrir mjólkurafurðir, vatn, bjór og sælgæti, að mati skýrsluhöfunda.
Félag atvinnurekenda gerir skýrsluna að umtalsefni á heimasíðu sinni. Þar er haft eftir Ólafi Stephensen, framkvæmdastjóra FA, að skýrslan sé fyrst og fremst lýsing á umhverfinu en engar tillögur séu þar til breytinga. „Það verður þó æ skýrara að ekki verður lengur unað við núverandi kerfi ofurtolla og innflutningshafta. Öll áhersla stjórnvalda er á að vernda innlenda framleiðendur, á kostnað neytenda og innflutningsverslunar.“