Mennirnir tveir sem sitja í gæsluvarðhaldi grunaðir um undirbúning hryðjuverka ræddu um að drepa Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar, og Gunnar Smára Egilsson, formann framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokks Íslands. Frá þessu er greint á Samstöðinni, samfélagssjónvarpi og og vettvangi fyrir róttæka samfélagsumræðu sem tengist Sósíalistaflokknum.
Þar er greint frá því að héraðssaksóknari hafi kallað inn fólk sem mennirnir tveir ræddu um að meiða eða drepa til vitnaleiðslu. Á meðal þeirra séu Sólveig Anna og Gunnar Smári. Í fréttinni segir að Sólveigu Önnu hafi verið sýnd samskipti þar sem hún er kölluð „litla kommalufsan sem vildi gera byltingu“ og heitstrengingar mannanna um að drepa hana einn daginn. „Gunnari Smára voru sýnd samskipti þar sem annar maðurinn var staddur á sama veitingastað og hann og barmaði sér yfir að vera ekki vopnaður. Á eftir fylgdu vangaveltur um hvað myndi gerast ef hann dræpi Gunnar Smára þarna á staðnum. Ég væri kominn upp á löggustöð fyrir miðnætti, sagði sá á staðnum. Við myndum fljúga inn á þing, sagði hinn, eins og morðið myndi gera þá að þjóðhetjum.“
Í frétt Samstöðvarinnar er haft eftir Sólveigu Önnu að það sé óhugnanlegt að fá að vita að mennirnir hafi verið að smíða vopn og gæla við að taka sig af lífi fyrir pólitískar skoðanir og starf. Gunnar Smári segir á sama stað að hann hafi áður bent á hversu hættuleg hatursorðræða frá hægri gagnvart verkalýðsbaráttu og sósíalisma sé. Ekki sé talað eins illa um nokkra manneskju í íslenskum fjölmiðlum og Sólveigu Önnu. Það sé vegna þess að hún lætur valdastéttina heyra það og vegna þess að hún sé sósíalisti og kona.
Sýndu árshátið lögreglumanna sérstakan áhuga
Mennirnir sem um ræðir voru handteknir 21. september síðastliðinn í umfangsmiklum aðgerðum sérsveitar ríkislögreglustjóra. Um tíma tóku um 50 lögreglumenn þátt í þeim. Mennirnir eru á þrítugsaldri og eru báðir enn í gæsluvarðhaldi þar sem þeir eru látnir sæta einangrun. Rannsókn lögreglu snýst meðal annars um að kanna hvort mennirnir tengist norrænum öfgasamtökum.
Á upplýsingafundi lögreglunnar í kjölfar handtöku þeirra kom fram að árásirnar hefðu meðal annars átt að beinast að Alþingi og lögreglu. Morgunblaðið hafði á sama tíma eftir heimildarmönnum sínum að mennirnir hafi sýnt árshátíð lögreglumanna, sem stóð fyrir dyrum, sérstakan áhuga. Í blaðinu kom einnig fram að á meðal þess sem hafi fundist við húsleit lögreglu hafi verið þjóðernisofstækisáróður. Á meðal ætlaðra fyrirmynda mannanna hafi verið Anders Behring Breivik, sem myrti 77 einstaklinga í Osló og Útey árið 2011.
Í hádegisfréttum RÚV 23. september var greint frá því að mennirnir tveir sem eru í gæsluvarðhaldi hafi rætt sín á milli um að fremja fjöldamorð og nefnt lögreglumenn, Alþingi og fleira í því samhengi. Þetta hafi komið fram í síma- og tölvugögnum sem fundist hafi. Annar mannanna losnaði úr gæsluvarðhaldi degi áður en hann var handtekinn. Ástæða þess var grunur um vopnalagabrot fyrr á þessu ári.
Samkvæmt almennum hegningarlögum á að refsa fyrir hryðjuverk með allt að ævilöngu fangelsi.
Rúður brotnar og Gunnari Smára hótað
Í byrjun september greindi Gunnar Smári frá því í færslu á Facebook að húsnæði þar sem Sósíalistaflokkur Íslands leigir aðstöðu ásamt öðrum samtökum hafi verið grýtt, með þeim afleiðingum að tveir gluggar þar sem merki flokksins og Samstöðvarinnar var, brotnuðu.
Þar sagði hann enn fremur frá því að maður hefði sent á hann skilaboð skömmu áður með óhróðri. Skilaboðin voru eftirfarandi: „Þið eruð siðblind helvíti og farið beint þangað. Ég mun finna á endanum hvar þið eigið heima. Hugsaðu um fjölskylduna þína áður en þið haldið áfram. Ég vill ekki beita vopnum en þið gefið mér ekki færi á öðru.“
Gunnar Smári sagði að hann hafi greint manninum frá því að hann myndi senda skilaboðin til lögreglu og gerði það í kjölfarið. „Lögreglumaður hringdi í mig daginn eftir og ég nefndi við hann að annar maður hefur haft í hótunum við mig, veist að mér úti á götu og fjölskyldu minni. Ég sá hann síðast fyrir utan heimili mitt þar sem hélt hótunum sínum áfram, hrópaði alls kyns ókvæðisorð um meinta glæpi sósíalismans, sagði mér að láta Bjarna Benediktsson í friði og hrópaði að lokum: Viva Bjarni Ben!“