Íslenska leikjafyrirtækið Klang Games, framleiðandi óútkomna tölvuleiksins ReRunners fyrir snjallsíma og snjalltæki, hefur fengið fjármagn frá fjárfestingasjóðinum London Venture Partners. Að baki Klang Games standa þrír Íslendingar, þeir Oddur Snær Magnússon sem jafnframt er framkvæmdastjóri, Ívar Emilsson forritari, og listamaðurinn og hönnuðurinn Mundi. Þeir eru búsettir í Berlín. Í færslu Wall Street Journal kemur fram að fjárfesting Lundúnarsjóðsins í Klang Games nemi um 630 þúsund dollurum, jafnvirði um 85 milljóna króna.
London Venture Partners sérhæfir sig í fjárfestingum í tölvuleikjafyrirtækjum og kom meðal annars snemma að finnska fyrirtækinu SuperCell, framleiðanda leikjanna Clash of Clans og Boom Beach, að því er fram kemur í umfjöllun fréttasíðunnar Norðurskautið um málið. Báðir leikirnir hafa náð miklum vinsældum á snjalltækjum.
Í tilkynningu á vefsíðu Klang Games segir Oddur að þeir séu afar stoltir af samstarfi sínu við London Venture Partners, sem búi yfir mikilli reynslu og innsýn í heim tölvuleikja.
Klang Games var stofnað árið 2013. Unnið er að útgáfu leiksins ReRunners fyrir snjalltæki en stefnt er að útgáfu leiksins í haust. Fram kemur í umfjöllun Norðurskautsins um leikinn, sem birtist í byrjun júní, að leikurinn sé fjölspilunarleikur þar sem keppendur muni keppa í hlaupi sín á milli og nota hæfni, kænsku og sprengjur til að ná yfirhöndinni.
Welcoming @KlangGames to the LVP family! http://t.co/QvUSYsDTpl #seedround pic.twitter.com/ZSLz4n3Zda
— London VP (@LondonVP) July 22, 2015
Hér að neðan má sjá skjáskot úr ReRunners, sem fengin voru af heimasíðu Klang Games.