Ein stærsta tölvuleikjadeild heims, the Electronic Sports League (ESL), hefur ákveðið að tölvuleikjaspilarar muni framvegis gangast undir lyfjapróf fyrir þátttöku í móti. ESL hyggst hefja sýnatökuna á fyrirhuguðu tölvuleikjamóti í ágúst, en deildin ákvað að herða keppnisreglur sínar eftir að þekktir tölvuleikjaspilarar gortuðu sig af því nýverið að hafa neytt lyfseðilskyldra lyfja við athyglisbresti og ofvirkni á tölvuleikjamóti til að skerpa á einbeitingunni í skotleiknum Counter Strike. Fréttamiðillinn New York Times greinir frá málinu.
ESL hefur samið við tvö þekkt fyrirtæki um útfærslu og framkvæmd lyfjaprófanna, sem og gerð lyfjareglna fyrir tölvuleikjamót á vegum deildarinnar. Annað fyrirtækið hefur komið að lyfjaprófum fyrir hjólreiðamót, Ólympíuleikanna og aðra stærri íþróttaviðburði.
Hertari reglur ESL gefa sterklega til kynna hversu mikil alvara er hlaupin í tölvuleikjaspilun, en verðlaun fyrir efstu sæti á tölvuleikjamótum geta hlaupið á milljónum króna. Á þessu ári er gert ráð fyrir að tekjur af tölvuleikjakeppnum fari upp fyrir 250 milljónir Bandaríkjadala. Verðlaunafé á árinu 2015 er áætlað yfir 70 milljónir Bandaríkjadala, eða hátt í fimmtán milljarða íslenskra króna.
„Við viljum að allir sitji við sama borð og stuðla að heiðarlegri keppni,“ hefur the New York Post eftir talsmanni ESL. Þá ber að geta þess að tölvuleikjamótshaldarinn hefur bannað notkun lyfja í keppnum hngað til, en í mótsreglunum voru hvorki tilgreind lyfin sem ekki máti neyta, né uppi virkt eftirlit með lyfjanotkun keppenda.