Tölvupóstur sem Sigríður Björk Guðjónsdóttir, þáverandi lögreglustjóri á Suðurnesjum, kveðst hafa sent Gísla Frey Valdórssyni, þáverandi aðstoðarmanni Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra, þann 20. nóvember árið 2013 með greinargerð um hælisleitandann Tony Omos, finnst hvorki í innanríkisráðuneytinu né hjá embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum.
Þetta kemur fram í svörum ráðuneytisins og lögreglustjóraembættisins við fyrirspurn Persónuverndar, sem óskaði eftir að fá umræddan töluvpóst afhentan.
Upplýsingar í minnisblaði gátu ekki komið úr greinargerð
Persónuvernd hóf rannsókn á samskiptum Sigríðar Bjarkar og Gísla Freys í kjölfar yfirlýsingar sem Sigríður sendi frá sér í vegna fréttar DV frá 18. nóvember, um að hún og Gísli Freyr hefðu ræðst við í síma daginn sem fréttir um hælisleitandann Tony Omos birtust í fjölmiðlum. Í yfirlýsingunni viðurkenndi Sigríður að hún hefði sent Gísla Frey umbeðna greinargerð um málefni Omos.
Umrædd greinargerð var afhent Persónuvernd eftir dúk og disk, en tölvupósturinn sem Sigríður Björk kveðst hafa sent Gísla Frey með greinargerðinni er lykilgagn í rannsókn Persónuverndar, samkvæmt heimildum Kjarnans. Sigríður Björk hefur ítrekað haldið fram að greinargerðin hafi verið send Gísla þann 20. nóvember, eða kvöldið eftir að fyrstu fréttirnar um Tony Omos birtust, og því hafi einhverjar upplýsingar í frægu minnisblaði sem Gísli Freyr sendi fjölmiðlum um hælisleitandann ekki getað komið úr henni.
Persónuvernd bíður enn eftir að fá tölvupóstinn
Eftir að Persónuvernd fékk upplýsingar um að umræddur tölvupóstur hafi hvorki fundist hjá innanríkisráðuneytinu né lögreglustjóraembættinu á Suðurnesjum, sendi stofnunin Gísla Frey og Sigríði Björk bréf þann 21. janúar síðastliðinn, þar sem þeim var veittur frestur til að afhenda tölvupóstinn. Frestur Sigríðar Bjarkar rann út í dag, en Persónuvernd féllst nýverið á beiðni hennar um lengri frest. Frestur Gísla Freys til að afhenda Persónuvernd umræddan tölvupóst rennur út á morgun. Persónuvernd hefur engin viðbrögð fengið frá honum.
Eins og áður segir er tölvupósturinn lykilgagn í rannsókn Persónuverndar á samskiptum Sigríðar Bjarkar og Gísla Freys vegna lekamálsins. Bæði til að fá staðfest að tölvupósturinn hafi verið sendur daginn eftir að fyrstu fréttirnar birtust um Tony Omos, og til að kanna hvort tölvupósturinn hafi innihaldið frekari upplýsingar.