Eftir langar og strangar stjórnarmyndunarviðræður, á danskan mælikvarða, hefur ný ríkisstjórn Sósíaldemókrataflokksins, Venstre og Moderaterna verið kynnt til leiks. Um er að ræða meirihlutastjórn, og er þetta í fyrsta sinn sem dönsk ríkisstjórn hefur meirihluta þingliðsins á bak við sig frá því að slík stjórn tók við völdum árið 1993.
Ráðherralistinn var kynntur í morgun og kom hann ef til vill sumum á óvart. Mette Frederiksen leiðtogi jafnaðarmanna verður forsætisráðherra eins og vitað var, Lars Løkke Rasmussen formaður Moderaterne verður utanríkisráðherra en Jakob Ellemann-Jensen formaður Venstre verður varnarmálaráðherra auk þess að vera „vara-forsætisráðherra“.
Hið síðastnefnda þótti óvænt, en fyrirfram höfðu margir búist við því að Ellemann-Jensen fengi fjármálaráðuneytið í sinn hlut. Svo verður hins vegar ekki, og segist Ellemann-Jensen ánægður með að taka að sér varnarmálaráðuneytið. „Það er stríð í álfunni, og herinn í Danmörku er mikilvægari en hann hefur verið í mörg ár,“ sagði Ellemann-Jensen við DR, en miklar fjárfestingar eru fyrirhugaðar í danska heraflanum.
Sósíaldemókratar fá hins vegar fjármálaráðuneytið, og verður Nicolai Wammen því áfram fjármálaráðherra Danmerkur en hann hefur verið í því embætti frá 2019. Alls eru ráðherrar ríkisstjórnarinnar 23 talsins og eru karlar 15 talsins en konurnar átta.
Sósíaldemókratar eru í 11 embættum, ráðherrar Venstre eru 7 og Moderaterne eru með 5 ráðherra í sínum röðum, þar af tvo sem eru utanþingsráðherrar, þau Christina Egelund sem verður mennta- og rannsóknaráðherra og Lars Aagaard, fyrrverandi forstjóri Dansk Energi, sem verður ráðherra loftslags-, orku- og veitumálaráðherra.
Helgidagur hverfur og styttri námsstyrkir
Þrátt fyrir að ráðherrakapallinn hafi ekki orðið ljós fyrr en í morgun var stjórnarsáttmálinn kynntur í gær. Þar kennir ýmissa grasa, meðal annars á að afnema einn almennan frídag, kóngsbænadag, sem er fjórða föstudaginn eftir páska. Hann verður almennur frídagur 5. maí á næsta ári, en síðan aldrei aftur. Þess má til gamans geta að Alþingi afnam þennan dag sem helgidag á Íslandi árið 1893.
Nýja ríkisstjórnin ætlar líka í nokkrar breytingar á menntakerfinu. Í háskólum landsins á að stytta helmings alls meistaranáms niður í eitt ár í stað þess að slíkt nám taki tvö ár. Samhliða verður skorið niður í námsstyrkjakerfinu, SU, og verður einungis mögulegt fyrir stúdenta að hljóta SU í fimm ár, í stað þeirra sex ára sem nú eru í boði.
Á móti á að leggja meira fé í iðnmenntun en nú er gert og auka vægi hennar innan danska menntakerfisins.
Danska stjórnin ætlar að uppfæra loftslagsmarkmið sín, og stefnir nú á að Danmörk verði kolefnishlutlaus árið 2045, en ekki 2050 eins og áður var stefnt að.
Nýtt millitekjuþrep og topp-toppskattur
Einnig verður farið í allnokkrar breytingar á skattkerfinu, sem lykta mjög af málamiðlunum yfir miðjuna.
Skattar eru lækkaðir á lágtekjufólk og upp launastigann, með almennri hækkun persónuafsláttar, en að sama skapi verða mörk núverandi hátekjuskatts (d. topskat) hækkuð og nýju milliskattþrepi, sem kalla mætti lág-hátekjuþrep, skotið inn. Það skilar sér í nokkrum skattalækkunum fyrir fólk sem er í efri þrepum launastigans.
Nú munu einungis þeir sem eru með yfir 750.000 danskar í árslaun, jafnvirði 15,2 milljóna króna íslenskra, þurfa að greiða eitthvað í „toppskattinn“, en í dag nær þetta skattþrep til þeirra sem eru með yfir 618 þúsund danskar krónur í árslaun.
Á móti kemur hins vegar nýr há-hátekjuskattur (d. top-topskat) sem einungis leggst á þá sem hafa yfir 2,5 milljónir danskra króna, jafnvirði um 50 milljóna íslenskra króna, í árslaun.
Þessar breytingar, allt í allt, hljóða upp á alls um 5 milljarða danskra króna árlegar skattalækkanir á danska borgara, jafnvirði um 100 milljarða króna íslenskra.
Hærri laun fyrir einhverja opinbera starfsmenn
Í stjórnarsáttmálanum kemur fram að til standi að verja fé til þess að bæta kjör opinberra starfsstétta. Ekki kemur hins vegar fram hvaða stéttir eiga að fá sérstakar launahækkanir, en danskir fjölmiðlar hafa flestir skreytt tíðindi af þessum breytingum með myndum af starfsfólki í heilbrigðisþjónustu.
Að hækka laun opinberra starfsstétta var eitt af kjarnamálum Sósíaldemókrataflokksins í kosningabaráttunni, en fjármagna á þessar breytingar með því að draga saman seglin í stjórnsýslu sveitarfélaga og héraða um landið.
Heilbrigðiskerfið í nefnd
Töluverð áhersla var á umræður um heilbrigðiskerfið í kosningabaráttunni í Danmörku. Lítil niðurstaða virðist þó hafa fengist í málaflokkinn í viðræðum flokkanna.
Ákveðið hefur verið að skipa heilbrigðiskerfiráð, sérfræðinganefnd sem á að skoða heilbrigðiskerfi Danmerkur frá toppi til táar og skila inn tillögum að breytingum að betra og skilvirkara kerfi.
Áfram stefnt að því að útvista hælisleitendum
Minnihlutastjórn Sósíaldemókrataflokksins var á síðasta kjörtímabili með fyrirætlanir um að koma á fót „móttökumiðstöð“ fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd í Afríkuríkinu Rúanda, við litla kátínu sumra þeirra flokka á vinstri vængnum sem studdu minnihlutastjórnina falli.
Í nýja ríkisstjórnarsamstarfinu er ekki hvikað frá áformum í þessa átt, en ríkisstjórnin segist nú vilja beita sér fyrir því að miðstöð af þessu tagi, utan Evrópu, verði sett á fót í samstarfi við önnur lönd eða af sjálfu Evrópusambandinu.