Fjölmiðlafyrirtækið Torg tapaði upp undir 600 milljónum króna á síðasta ári, að því er fram kemur í frétt Fréttablaðsins í dag. Torg gefur út Fréttablaðið, sem og vefmiðlana dv.is, eyjan.is, pressan.is, 433.is, hringbraut.is og frettabladid.is. Fyrirtækið rekur enn fremur sjónvarpsstöðina Hringbraut.
Helgi Magnússon aðaleigandi Torgs segir í samtali við Fréttablaðið að fyrirtækið sé ekki til sölu en fjölmiðlar hafa á undanförnum vikum greint frá því að boðið hafi verið í fyrirtækið.
Hann segir að þau hafi „fengið fyrirspurnir og óformleg tilboð í fyrirtækið eða hluta þess frá nokkrum aðilum að undanförnu. Þeim hugmyndum hefur öllum verið svarað neitandi og vísað frá með þeim orðum að ekkert sé til sölu hjá okkur.“
Fjármagnað með nýju hlutafé
Helgi segir við Fréttablaðið að þeir aðilar sem rætt hafi við útgáfufélagið Torg geri sér ljóst að bjartir tímar geti verið fram undan í þessum rekstri eftir mjög erfiða tíma vegna veirufaraldursins.
Tap ársins 2020 hafi numið upp undir 600 milljónum króna, eins og áður segir. Hann segir að það hafi allt verið fjármagnað með nýju hlutafé. „Nú horfir til betri vegar eftir að veiruvandinn er hættur að hafa áhrif á tekjuöflun fyrirtækisins og við væntum þess að hagur þess vænkist mjög við eðlilegar aðstæður í viðskiptalífinu.“