Næstum sjö af hverjum tíu svarendum í nýlegri skoðanakönnun telja að verja ætti íslenskt efnahagslíf gagnvart fjárfestingu frá Kína. Nokkur munur er á viðhorfum til kínverskra fjárfestinga og erlendrar fjárfestingar almennt. Rúm fjörutíu prósent segjast almennt hafa neikvæð viðhorf til erlendrar fjárfestingar, en yfir 30 prósent sögðust jákvæð.
Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu frá Alþjóðamálastofnun HÍ, sem kynnt verður á fundi í dag, en Silja Bára Ómarsdóttir prófessor í stjórnmálafræði tók skýrsluna saman. Í henni er fjallað um niðurstöður könnunarinnar og ályktanir sem af þeim má draga.
Atvinnuleysið og staða efnahagsmála stærstu áskoranirnar
Er könnunin var framkvæmd, í nóvember og desember 2020, voru þátttakendur beðnir um að nefna tvær helstu stærstu áskoranirnar sem Ísland stæði frammi fyrir. Ekki þarf að koma á óvart að efnahagslegar afleiðingar heimsfaraldursins eru mörgum hugleiknar.
Flestir nefndu atvinnuleysi, eða 53,8 prósent og næst flestir, 45,4 prósent, nefndu stöðu efnahagsmála sem aðra af tveimur stærstu áskorunum Íslands í dag.
Í þriðja sæti voru loftslagsbreytingar og umhverfismál, en 37,3 prósent aðspurðra nefndu þann málaflokk sem eina af tveimur stærstu áskorunum Íslands. Tuttugu og þrjú prósent nefndu vaxandi framfærslukostnað sem stærstu áskorunina og þrettán prósent falsfréttir og upplýsingaóreiðu. Það eru ögn fleiri en nefndu innflytjendamál, en rúm 12 prósent sögðu þau eina helstu áskorun samtímans á Íslandi.
Alþjóðamál og tengdar öryggisógnir í hefðbundnum skilningi voru ekki ofarlega á lista, þegar svarendur voru beðnir um að nefna helstu áskoranir Íslands.
Rúm 40 prósent jákvæð í garð NATÓ
Í könnuninni voru þátttakendur meðal annars spurðir út í afstöðu sína til Atlantshafsbandalagsins, NATÓ. Næstum 41 prósent aðspurðra kvaðst hafa jákvætt viðhorf til bandalagsins og einungis 13 prósent neikvætt, sem skýrsluhöfundur bendir á að sé í ágætum takti við fylgi Vinstri grænna, eina stjórnmálaflokksins á Íslandi sem leggst gegn aðild Íslands að NATÓ í stefnuskrá sinni. Tæp 39 prósent sögðust hlutlaus í garð NATÓ, hvorki jákvæð né neikvæð.
Spurt var hvort fólk vildi sjá Atlantshafsbandalagið þróast í þá átt að það yrði minna háð Bandaríkjunum. Svarendur virtust almennt ekki vera að velta þeirri spurningu mikið fyrir sér, en rúmlega 6 af hverjum 10 sögðust ýmist hlutlaus eða óviss um það. Rúm 26 prósent vildu sjá það gerast, en 12,6 voru á móti slíkri þróun NATÓ.
Ríkur vilji til meira samstarfs Norðurlanda
Í könnuninni var spurt út í samband Íslands við önnur ríki eða ríkjahópa og svarendur beðnir um að leggja mat sitt á það hvort Ísland ætti að eiga meira samstarf, óbreytt eða minna við ákveðin ríki.
Í ljós kom að ríkastur vilji var til þess að auka samstarfið við Norðurlöndin, en tæp sjötíu prósent aðspurðra sögðust vilja sá nánara samstarf á milli Íslands við hin norrænu ríkin til framtíðar litið. Að sama skapi sögðust margir, um eða yfir 40 prósent, vilja aukið samstarf við Evrópusambandið, Þýskaland og Bretland.
Aukið samstarf við stórveldin þrjú, Bandaríkin, Kína og Rússland, virðist hins vegar ekki eiga upp á pallborðið hjá Íslendingum.
Skoðanakönnunin var framkvæmd af dagana 16. nóvember til 9. desember 2020. Um netkönnun var að ræða og var úrtakið handahófskennt og vigtað til þess að endurspegla samsetningu íbúa á Íslandi með tilliti til kyns, aldurs, búsetu, menntunarstigs og tekna. Könnunin var send 1.985 einstaklingum og 882 svöruðu henni, sem nemur 44 prósent þátttöku.